Spurt og svarað

04. júlí 2013

Hafa gigtarlyf áhrif á mjólkurmyndun

Hæhæ !
Ég er með 3ja vikna snót og hjá mér hefur brjóstagjöfin gengið brösulega. Mér gengur afskaplega illa að ná mjólkinni á skrið og bæti á hana allt að 400 m.l á sólahring af þurrmjólk. Hún hangir á túttunum daginn út og inn en lítið gerist. Hún er hrifin af rjómanum og þolinmóð en það dugar ekki. Mjólkin skilar sér ekki. Þetta er þriðja barnið mitt og ég er ekki óróleg yfir því að brjóstin séu mjúk heldur að hún kyngir ekki nema í örlitla stund. Ég get ekki heldur mjólkað neitt eftir gjöf nema kanski teskeið á 15-20mínútum. Ég drekk vel, borða vel og tek inn bætiefni. EN - ég er að taka inn bólgueyðandi lyf, Naproxen E mylan 500. Ég veit að það truflar nýmyndun prostaglandína og hefur slæm áhrif ef notað er á meðgöngu. Ég fór því að velta vöngum hvort það geti haft hamlandi áhrif á mjólkurmyndun. Það eina sem ég finn af upplýsingum frá sérlyfjaskrá er að það berist í litlu mæli í brjóstamjólk - ekki hvort það hafi áhrif á myndun brjóstamjólkur. Er ég komin á villigötur að reyna að finna lausn á þessu veseni? Eða er eitthver fótur fyrir að bólgueyðandi lyf geti truflað mjólkurmyndun?Sæl og blessuð!
Það er leitt að heyra að það gangi svona illa hjá þér. En þú getur allavega verið róleg með það að Naproxen hefur lengi verið notað í brjóstagjöf án þess að nokkuð bendi til að það hafi áhrif á mjólkurmyndun. Þannig að það er óþarfi að líta til þess sem orsök. Það er ótrúlegt að nokkuð líkamlegt sé að trufla, sérstaklega þar sem þú átt 2 brjóstagjafir að baki og ert greinilega að passa sjálfa þig. Það gæti verið hjálplegt fyrir þig að fara yfir fyrri brjóstagjafir og vita hvað er öðruvísi í þetta skipti og hvort það gæti haft neikvæð áhrif. Aukið álag vegna fleiri barna gæti valdið meiri þreytu og streitu sem eru erfiðir fylgifiskar í brjóstagjöf. Ég get aðeins ráðlagt þér þessi almennu ráð sem bent er á til að auka mjólk eins og að tryggja gott grip hjá barni, gefa oft og 2-3 brjóst í einu, nota brjóstakreistun, draga úr ábót og draga úr álagi. Endilega ekki gefast upp því hjá mörgum er mjólkurframleiðslan upp í 6-8 vikur að ná sér á strik.

Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. júlí 2013. 
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.