Hákarlalýsi og brjóstagjöf

12.10.2006

Sæl og takk fyrir frábæran vef.

Mig langar að spyrja hvenær mér sé óhætt að byrja að taka hákarlalýsi? Ég er með 2 mánaða gamalt barn og eingöngu á brjósi. Mér er sagt að það sé nóg að taka fjölvítamín en mig langar mikið til að byrja aftur að taka hákarlalýsið.

Bestu þakkir.


Sæl og blessuð!

Þú mátt alveg fara að taka þitt hákrarlalýsi. Þú veist væntanlega að það er miklu sterkara en annað lýsi þannig að það þarf mjög lítið af því. Lestu vel utan á allar umbúðir og reiknaðu. Það er ekki gott að fara yfir ráðlagðan dagsskammt af fituleysanlegum vítamínum eins og A og D því líkaminn lendir í vandræðum með umfram magn.   

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. október 2006.