Spurt og svarað

23. september 2008

Harkaleg byrjun á brjóstagjöf

Góðan dag og takk fyrir góðan vef.

Ég er með eina 4ra mánaða skottu á brjósti og því eingöngu. Get ekki sagt að brjóstagjöfin hafi gengið mjög vel hjá okkur, en hún hefur gengið. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ástæðan fyrir brösulegri brjóstagjöf gæti verið að brjóstin hafi ekki verið kynnt fyrir stelpunni á réttan hátt í upphafi?  Málið er að hálfum sólarhring eftir að hún fæddist þurfti hún að fara inn á vöku og mátti ekki fara á brjóstið í rúman sólarhring. Þegar hún loksins mátti það grét hún alltaf alveg rosalega þegar hún átti að drekka og var "pínd" á brjóstið, svona gekk þetta í nokkra daga, ég þurfti alltaf aðstoð við að setja hana á brjóstið vegna þess að hún grét alltaf svo mikið. Að lokum gat ég gefið henni hjálparlaust. En það hafa oft komið hjá okkur tímabil sem hún hefur látið svona aftur. Það er alveg efni í heila ritgerð allt það bras sem við höfum gengið í gegnum með brjóstagjöfina og ætla ég ekki að fara út í það allt hérna. Ég er ekki með of hratt losunarviðbragð, var með það fyrstu vikurnar (geri mér grein fyrir því að það geti verið ástæða þess sem hún grét mikið fyrst) en það er ekki þannig hjá mér lengur, samt koma enn svona tímabil. Ég hef aldrei getað notað brjóstið sem huggunartæki ef hún hefur verið óvær og hún verður aldrei spennt að sjá það eins og svo mörg börn eru...  Getur verið að ástæðan fyrir öllu þessu brasi hjá okkur sé að brjóstin voru kynnt svona "harkalega" fyrir henni í upphafi?


Sæl og blessuð.

Já, það er víst ekkert annað svar til við þinni spurningu en einfalt já. Þetta hlé sem gert var á brjóstagjöfinni í byrjun er sennilegasta orsökin fyrir öllum þínum vandamálum. Ekki kannski endilega hvernig brjóstið var svo kynnt fyrir henni síðar heldur bara sjálft hléið. Ég óska þér bara til hamingju með hvað þú þó hefur getað leyst vel úr þessu. Sumar mæður gefast hreinlega upp. En það er greinilega ekki til í þínum huga og það er vel. Erfiðu tímabilunum ætti svo stöðugt að fara fækkandi.

Ég held að þú ættir að athuga vel af hverju þetta hlé var gert og athuga hvort e.t.v. mætti koma í veg fyrir að það endurtæki sig ef sú staða kemur upp.

Gangi þér sem best.              

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
23. september 2008.

        

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.