Spurt og svarað

08. maí 2006

Hárlos á brjóstagjafatímabili

Takk fyrir frábæran vef og skýr svör við innsendum fyrirspurnum.

Ég á þriggja mánaða son sem er eingöngu á brjósti. Núna er ég allt í einu komin með svakalegt hárlos. Þegar ég renni höndunum í gegnum hárið sitja eftir heilu hárflyksurnar í höndunum á mér! Tengist þetta eitthvað brjóstagjöfinni? Get ég tekið eitthvað sérstakt vítamín eða borðað einhverja sérstaka fæðu til að koma í veg fyrir þetta? Tek það fram að ég tek daglega lýsi, kalk, fjölvítamín, magnesíum, spírulína og járntöflur.

Bestu kveðjur, Rósa.


Sæl og blessuð Rósa.

Hárlos á brjóstagjafatímabili er mjög eðlilegt fyrirbæri og ekkert til að hafa áhyggjur af. Það er jú svo að á hverjum degi missa manneskjur u.þ.b. 50 hár. Þetta er bara hluti af venjubundinni endurnýjun hársins. 

Á meðgöngu breytist ástandið svolítið fyrir áhrif hormóna og fleiri þátta. Þá missa konur miklu færri hár en venjulega. Sumar konur taka eftir því að hár þeirra verður þykkara og heilbrigðara. Eftir fæðinguna verður aftur mikil breyting í líkamanum. Þá byrjar aftur venjubundið hárlos og rúmlega það. Þannig að margar konur taka eftir því að óvenjlega mikið af hárum fer. En þetta er sem sagt í góðu lagi því það er mikil „innistæða“ af hárum. Þegar þetta tímabil er búið er staðan ósköp svipuð og hún var áður en meðgangan hófst.

Það er fínt hjá þér að taka inn vítamín og bætiefni. Það kemur ekki í veg fyrir hárlosið en kannski heldur hárinu heilbrigðara.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.