Spurt og svarað

20. nóvember 2006

Hassreykingar og brjóstagjöf

Sælar!

Ég vill ekki hljóma eins og óábyrg móðir en þannig er mál með vexti að ég og kærasti minn höfum alltaf reykt hass öðru hvoru þar sem okkur finnst það oft skemmtilegra en að fá okkur í glas og finnst áfengi alveg jafn skaðlegt ef ekki verra. Ég hætti að reykja sígarettur um leið og ég vissi að ég væri ólétt og einnig drakk ég aldrei áfengi né reykti hass og reyndist það mér ekkert mál. Núna eru tvær vikur síðan ég átti og ég hef verið að lesa að allt í lagi sé að drekka áfengi meðan á brjóstagjöf stendur ef maður bíður með að gefa brjóst þangað til áhrifin af áfenginu eru horfin. Mig langaði að vita hvort það sama gilti um hassreykingar. Fara skaðleg efni frá hassinu í mjólkina og hversu lengi eru þau að fara úr mjólkinni? Ég er ekkert að stressa mig yfir að geta reykt en það eru svo margar konur sem reykja sígarettur mörgum sinnum á dag þótt þær séu að gefa brjóst og ég var að pæla hvort það væri eitthvað verra að reykja gras einu sinni í mánuði.

Takk kærlega fyrir góðan og upplýsandi vef! :)

 


Sæl og blessuð.

Þetta er þörf spurning. Það geta verið fleiri að velta þessu fyrir sér en þora ekki að spyrja. Málið er að í hassi eru mun hættulegri efni en í sígarettum og áfengi. Það er ekki út af engu sem það er bannað. Það sem er kannski verst er að THC sem er aðalefnið hefur minnkandi áhrif á prólaktín sem er aðal mjólkurframleiðandi hormónið. Prólaktín er líka kallað „móðurhormónið“ þar sem það virðist vera aðalhvati sterkra móðurtilfinninga og verndandi hegðunar gagnvart barninu. THC fer auðveldlega yfir í mjólk og er tekið upp af barninu. Það mælist síðan í þvagi barnsins samkvæmt rannsóknum. Það hefur þó ekki mér vitanlega verið sýnt fram á skaðleg áhrif á barn við minnstu reykingarnar. Ég mæli því með því að þú látir hassreykingar vera á meðan brjóstagjöfinni stendur til að vera alveg örugg.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. nóvember 2006.

Uppfært 15. september 2010/ASV

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.