Spurt og svarað

18. júní 2008

Hitaeiningar og brjóstagjöf

Sæl og takk fyrir frábæran vef.

Ég á barn sem er rúmlega 5 vikna og dafnar eðlilega. En ég var að velta fyrir mér ef ég næ ekki að borða 300-500 hitaeiningar aukalega á dag (kílóin hafa fokið eftir fæðingu og er ég 3 kílóum frá því sem ég var áður en var ólétt en ég hef samt ekki reynt að létta mig) hefur það áhrif á það hvað barnið mitt þyngist mikið? Ég er ekkert að telja hitaeiningarnar borða reglulega og reyni að borða hollt og drekk mikið. Ég vil bara ekki að það hafi áhrif á mjólkurframleiðslu og hvað barnið þyngist ef ég er ekki að fá nægar hitaeiningar. Hefur hitaeiningafjöldinn áhrif á mjólkurframleiðsluna og hvað barnið þyngist mikið? Svo reyni ég að vera dugleg að drekka te og vatn á milli mála.
Barnið mitt drekkur frekar oft, stundum á klukkutíma fresti en ég hef reynt að lengja aðeins á milli og að meðaltali drekkur það á 1,5-2 tíma fresti fyrir utan þegar sefur á nóttunni og á daginn þá á 3-4 tíma fresti. Á ég að gefa barninu að borða á klukkutíma fresti eða reyna að lengja eitthvað meira á milli eins og get? Er barnið ekki að fá meiri brodd ef það drekkur svona ört?

Með fyrirfram þökk.


Sælar!

Eftir því sem þekki til þá hefur hitaeiningafjöldinn sem móðirin neytir ekki áhrif á mjólkurframleiðsluna og hvað barnið þyngist. Þú er með 5 vikna barn sem dafnar eðlilega og samkvæmt því sem þú lýsir með hversu oft svona ungt barn fer á brjóst þá sýnist mér það vera alveg eðlilegt. Svona ung börn þurfa stundum að fara mjög oft á brjóst og oft líða um 3 til 4 tímar á milli gjafa þegar þau sofa. Þau drekka mismikið í hvert mál. Mæðrum sem léttast með börnin sín á brjósti er oft ráðlagt að reyna að borða oftar og þá lítið í einu til að fá inn fleiri hitaeiningar.  Ég sé ekki annað en þetta sé allt mjög flott hjá þér.

Með bestu kveðju og gangi þér vel áfram,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstgjafaráðgjafi,
18. júní 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.