Hitakrem og brjóstagjöf

02.11.2004

Takk fyrir frábæran vef.

Mig langar að spyrja ykkur hvort mér óhætt sé að nota hita krem á axlirnar á mér þar sem ég er með barn á brjósti? Það er eitthvað efni í þessu hitakremi sem ég helst vil nota sem heitir salísylati og einhver sagði að færi út í mjólkina? Er með mikla vöðvabólgu og finnst þetta verka vel en þori ekki að nota sem stendur ef þetta er hættulegt!

Með von um svar og kærar þakkir, mamman.

.........................................................................

Sæl og blessuð.

Þér er alveg óhætt að nota hitakremið þitt á axlirnar. Staðbundin notkun á kremum svo sem á húð, í leggöng, í nef eða augu er ólíkleg til að ná upptöku svo nokkru nemi. Jafnvel þótt mikið að lyfinu sé notað gefur það aðeins örlítið magn í blóði móður. Þá á það eftir að fara yfir þröskuldinn í mjólkina og síðan fleiri hindranir þannig að þú getur verið alveg róleg. Ég vona bara að kremið dugi á vöðvabólguna því hana er ekki skemmtilegt að hafa í brjóstagjöf.

Bestu slakandi kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. nóvember 2004
.