Hiti móður og brjóstagjöf

25.02.2008

Sælar.

Mig langar að fá upplýsingar um hvort og þá hvaða áhrif hiti móður hefur á mjólkina. Ég hef verið með nokkuð háan hita í tvo daga og á fullt í fangi með að mjólka handa drengnum mínum. Breytist bragð og hitastig mjólkur þó ég sé veik? Er mikilvægast að drekka vökva? Er kannski eitthvað annað sem hjálpar til við mjólkurmyndun veikrar mömmu:(

Kær kveðja, Helga.


Sæl og blessuð.

Við veikindi móður breytist mjólkin nánast ekkert. Að vísu myndast mótefni gegn viðkomandi sýkli í líkama móðurinnar. Mótefnin berast í mjólkina og þaðan til barnsins. Þetta myndar vörn barnsins gegn viðkomandi sýkli sem er ástæða þess að börn á brjósti verða yfirleitt ekki veik. Ef þau veikjast er það yfirleitt mjög vægt því þau eru með tilbúin réttu mótefnin.  Þetta er auðvitað stórkostlegt varnarkerfi en er í raun ekki stór breyting á samsetningu mjólkurinnar. Mjólkin verður heitari sem nemur nokkrum gráðum. Flestum börnum er alveg sama um það. Það er ósköp lítið hægt að gera nema láta líkamann kljást við ástandið. Aukin vökvaþörf er bein afleiðing hitans og þarf að uppfylla hana. Annars er bara að fara vel með sig og nota skynsemina.

Láttu þér batna.         

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. febrúar 2008.