Spurt og svarað

25. febrúar 2008

Hiti móður og brjóstagjöf

Sælar.

Mig langar að fá upplýsingar um hvort og þá hvaða áhrif hiti móður hefur á mjólkina. Ég hef verið með nokkuð háan hita í tvo daga og á fullt í fangi með að mjólka handa drengnum mínum. Breytist bragð og hitastig mjólkur þó ég sé veik? Er mikilvægast að drekka vökva? Er kannski eitthvað annað sem hjálpar til við mjólkurmyndun veikrar mömmu:(

Kær kveðja, Helga.


Sæl og blessuð.

Við veikindi móður breytist mjólkin nánast ekkert. Að vísu myndast mótefni gegn viðkomandi sýkli í líkama móðurinnar. Mótefnin berast í mjólkina og þaðan til barnsins. Þetta myndar vörn barnsins gegn viðkomandi sýkli sem er ástæða þess að börn á brjósti verða yfirleitt ekki veik. Ef þau veikjast er það yfirleitt mjög vægt því þau eru með tilbúin réttu mótefnin.  Þetta er auðvitað stórkostlegt varnarkerfi en er í raun ekki stór breyting á samsetningu mjólkurinnar. Mjólkin verður heitari sem nemur nokkrum gráðum. Flestum börnum er alveg sama um það. Það er ósköp lítið hægt að gera nema láta líkamann kljást við ástandið. Aukin vökvaþörf er bein afleiðing hitans og þarf að uppfylla hana. Annars er bara að fara vel með sig og nota skynsemina.

Láttu þér batna.         

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. febrúar 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.