Spurt og svarað

04. maí 2008

Hjálp, brotin sál

Elsku ljósur!

Ég skrifa ykkur í von um smá hughreystingu, þannig er mál að ég á eina 5 vikna prinsessu, hún fæddist 3.370 gr. Hjúkkan sem er með hana í ungbarnavernd og læknirinn líka segja að hún sé ekki að þyngjast nóg. Hún var í 6 vikna skoðun núna í dag ekki til tími í næstu viku og er orðin 3950 gr. Hún er eingöngu á brjósti og mér finnst hún drekka vel, hún ælir svolítið en alltaf eftir það vill hún drekka meira, sem hún fær. Hún sefur vel og er voða góð, ég passa að hún drekki á 1-2 tíma fresti. Ég er miður mín yfir þessu og upplifi mig sem misheppnaða mömmu. Ég á 2 önnur börn sem eru 7 og 8 ára og voru þau bæði á brjósti til 6 mánaða.

„Plís“ getið þið sagt mér að ég sé ekki að svelta barnið mitt, því ég fæ þá strauma frá hjúkku og lækni.


 
Sæl og blessuð.

Ég skil vel að þú þurfir á hughreystingu að halda. Það er fátt meira niðurbrjótandi en ef gefið er í skyn að maður standi sig ekki sem móðir. Það eru reyndar litlar upplýsingar sem þú gefur en miðað við þær tölur sem þú gefur þá er alveg sama hvernig ég velti þeim og umreikna ég fæ alltaf út að barnið hafi þyngst nóg. Þú getur alltaf miðað við að barn eigi að þyngjast um 110 gr. á viku að lágmarki. Þeim er svo gefin möguleiki á að taka þetta svolítið í sveiflum þannig að ef það þyngist minna en lágmarkið eina viku þá verður það að þyngjast meira en það í næstu viku. Svo eru miklu fleiri atriði sem eru athuguð við þrif barna. Þau þurfa að lengjast og höfuðmálið þarf að stækka og það eru til töflur sem sýna hversu mikið þetta á að vera innan eðlilegra marka. Mikilvægast er þó þroski barnsins og þá er verið að taka um hegðun og ákveðin tímaviðmið um hvenær barnið á að byrja að brosa, hjala og öðlast ákveðna hreyfigetu. Þetta áttu allt að geta séð á heilsufarsbók barnsins. Þannig að ef þessir þættir eru í lagi á að geta verið róleg. Varðandi brjóstagjöfina þá er það sem þú lýsir í góðu lagi. Það er alltaf miðað við að barn nái a.m.k. 8 gjöfum á sólarhring og að gjafirnar nái 10 mín. eða meiru. Gefa þarf vel af fyrsta brjósti áður en skipt er yfir á hitt. Það gæti verið gott fyrir þig að skrá hjá þér gjafirnar í nokkra daga og einnig þvag og hægðableyjur svo þú sjáir á auðveldan hátt hvernig mynstrið er hjá ykkur. Svo er sjálfsagt fyrir þig að spyrja lækninn og/eða hjúkrunarfræðinginn hvað það sé nákvæmlega sem þau eru óánægð með svo þú getir brugðist við á réttan hátt. Ef það er aðeins þyngdin geturðu alltaf boðist til að gefa barninu fleiri brjóstagjafir og kippt því þannig í lag.

Vona að þetta hjálpi.               

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. maí 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.