Spurt og svarað

13. september 2005

Hjálp... brjóstagjöf

Sonur minn er 3 mánaða og ég hef verið með hann á brjósti og allt hefur gengið vel. Undanfarnar 2 vikur hefur hann verið mjög órólegur á brjóstinu, hann tekur 3 sopa og slítur sig svo af brjóstinu og það er sárt.  Það er eins og eitthvað sé að hann er mjög ósáttur, það er meira en´nóg mjólk í brjóstunum.  Allt gengur vel á nóttunni, hann drekkur rólegur og sofnar svo.  Ég hef verið í miklu uppnámi undanfarið eftir dauðsfall í fjölskyldunni, getur það haft áhrif?  En af hverju er hann þá rólegur á nóttunni?  Ég er í öngum mínum, gjörsamlega búin á taugum, ég er mjög sorgmædd og það er jarðaför framundan svo það verður ekki auðveldara....ég þarf hjálp... strax!  Ég er við það að gefast upp en ég vil ekki hætta með hann á brjósti.
Með fyrirfram þökk fyrir svörin

kveðja Vala

..........................................

Sæl og blessuð Vala. 

Ég samhryggist vegna dauðsfallsins í fjölskyldunni.  Þetta hljóta að vera mjög erfiðir tímar hjá þér.  En endilega ekki hætta brjóstagjöfinni svona snemma.  Það getur líka verið áfall fyrir þig að hætta brjóstagjöf þegar þú ert ekki fullkomlega sátt við það heldur vegna utanaðkomandi þátta.  Þetta er svo sérstakur tími sem þú og barnið þitt eigið ein sameiginlegan að missir þinn yrði aðeins enn meiri.

Það hefur alltaf áhrif á brjóstagjöf þegar álag er á móður og sérstaklega ef það er andlegt en það er alltaf hægt að komast yfir það.

Nýttu þér þá staðreynd að það gengur vel á nóttunni. Þá ertu sennilega afslappaðri og það er ró í umhverfinu. Prófaðu að leika það eftir í daggjöfum. Farðu með barnið upp í rúm , slökktu og dragðu gardínur fyrir. Reyndu að hafa sem minnstan hávaða eða aðra truflun og reyndu að bægja öllum óþægilegum hugsunum frá. Finndu þér eitthvað róandi að hugsa um. Þetta á kannski ekki eftir að virka í hver einasta skipti til að byrja með en reyndu endilega áfram. Áður en þú veist af verður erfiðasti tíminn yfirstaðinn.

Og mundu um leið eftir þeirri staðreynd að um 3ja mánaða aldur hætta börn að sofna út frá brjóstagjöf en ljúka henni frekar með því að slíta sig af.

Með styrkjandi óskum.                     

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
13.09.2005.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.