Spurt og svarað

03. nóvember 2007

Hjartastelpa

Sælar!

Ég er með eina 9 vikna prinsessu, hún er með hjartasjúkdóm og tekur hjartalyf. Við vorum aðskildar strax við fæðingu og ég fékk ekki að leggja hana á brjóst fyrr en ca. 9 klst. eftir fæðingu:( Hún var á vökudeildinni í 2 vikur, brjóstagjöfin fór öll í rugl, þar þurfa börnin að fá ákveðið magn vökva (brjóstamjólk/eða þurrmjólk) miðað við þyngd á móti lyfjagjöfinni, þar eru notuð staup og pelar. Á þeim tíma reyndi ég eins og ég gat að leggja hana á brjóstið, en hún var áhugalaus (enda alltaf södd) og óþolinmóð. Þegar heim var komið byrjaði stríð! Fyrst notuðum við hattinn og hún fékk ábót um tíma en við höfum hætt því, og núna eftir 1½ mánuð er hún komin bara á brjóstið með hjálp góðra kvenna (Brjóstaráðgjafa LSH) og þyngist ágætlega. Hún hefur þyngst fremur hægt, var fædd 3.770 - 53 cm og er núna 5.025 gr og 61,5 cm. Við foreldrarnir erum mikið að spá í það hvort að snuðið minnki áhuga hennar á brjóstinu, hún er ekki mjög áhugasöm um að drekka yfirleitt (lyfið gæti haft aukaverkun sem dregur úr lyst). Okkur finnst hún þreyta sig á snuðinu og vilja taka stuttar gjafir, ég hef áhyggjur af því að hún fái ekki feitu mjólkina! Getur þú útskýrt hvaða afleiðingar það hefur, aðrar en að þyngjast ekki eins hratt, að fá of mikla formjólk. Núna er hún orðin það stór að hún lætur ekki plata sig, ef ég tek hana af til að ropa, þá vill hún ekki fara aftur á og grætur eftir snuðinu, einnig ef ég býð henni „óvænt“ þá tekur hún yfirleitt illa í það:( Er rétt að reyna að venja hana af snuðinu, sem hún var vanin á á vökudeildinni frá fæðingu....! Hvaða aðferðir eru bestar við það og hvað á maður að gefa því langan tíma? Við erum að reyna þetta aðeins núna, en hún er mjög óvær og sífellt með hnefana við vitin og slefar mikið, en þegar ég býð henni brjóstið þá vill hún ekki sjá það. Einnig hef ég áhyggjur af því að flæðið sé mjög mikið, ég hef verið að lesa fyrirspurnir frá öðrum mæðrum hér á vefnum og lýsing þeirra á gjafamynstrinu(hegðun barnsins á brjóstinu) svipar mjög til minnar dömu. Ég er að reyna dyrabjölluaðferðina og að klemma saman vörtuna við varir barnsins, mér finnst það ekki bera mikinn árangur- hvað á ég að reyna það lengi? Jæja þetta er orðið ansi langt, vonandi fæ ég svar fljótlega:)

Kærar þakkir, Mami.


Sæl og blessuð og gaman að heyra hvað þú hefur verið dugleg að koma stúlkunni þinni á brjóst.

Ég sé það að hún er farin að þyngjast nokkuð vel svo ég myndi ekki hafa of miklar áhyggjur af formjólkinni. Það eru alltaf nokkur börn sem drekka í stuttan tíma - mörg börn eru södd eftir 10 mínútna brjóstagjöf/sog og fá nægju sína og það sem þau þurfa úr brjóstinu -- og þau fá samt bæði for- og eftirmjólk. Það er gott að halda sér bara við annað brjóstið í einu ef það dugar barninu og gefa svo hitt brjóstið næst. Ég myndi freka takmarka tímann með snuðið - því þá hefur hún meira úthald í að sjúga brjóstið (það þarf ekki endilega að hætta með snuðið en gefa henni það sjaldnar og í styttri tíma í einu). Þú talar um að þú takir hana afbrjóstinu til að láta hana ropa og þá vilji hún ekki brjóstið aftur - ég tel það ráðlegt að þegar þú gefur henni að leyfa henni að sjúga á meðan að hún vill það og láta hana hætta sjálfa og reyna þá að láta hana ropa. Þegar flæðið er mikið þá eru börnin oft fljótari að verða södd við brjóstið svo stundum er það kostur - sérstaklega ef börnin hafa ekki mikið úthald í að sjúga - en úthaldið verður meira eftir því sem börnin þyngjast og stækka,og að sama skapi þá minnkar flæðið oftast með tímanum.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. nóvember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.