Spurt og svarað

19. júlí 2009

Hjáveituaðgerð og brjóstagjöf

Komdu sæl og takk allan fróðleikinn hérna á síðunni!

Þannig er mál með vexti að þegar sonur minn sem er rúmlega þriggja mánaða í dag verður um sex mánaða fer ég í hjáveituaðgerð á maga vegna langvarandi offitu. Ég sé mér ekki fært að fresta aðgerðinni og verð því að gera ráðstafanir í sambandi við brjóstagjöfina. Eftir aðgerð er eingöngu fljótandi fæði (ca. 4 dl 5-6 sinnum á dag) í þrjár vikur og svo maukfæði í aðrar þrjár. Maður minnkar magn fæðu ansi mikið en tekur mikið af vítamínum til að það verði enginn skortur. Ég hef ekki talað við þá sem gera aðgerðina sjálfa en geri ráð fyrir að ég þurfi að hætta með barnið á brjósti. Eða ætti ég bara að prófa að hafa hann á brjósti eftir aðgerð og sjá hvað gerist? Brjóstagjöfin hefur gengið eins og í sögu og hefur hann bara fengið brjóstamjólk. Minnkar ekki mjólkin og verður "verri" við svona mikla skerðingu á fæðu? Hvernig fer ég að því að venja hann af brjóstiog hvenær þarf ég að byrja á því? Gef ég honum úr pela eða úr stútkönnu á þessum aldri og á ég að gefa honum þurrmjólk eða stoðmjólk.

Kveðja, Sigrún.


 

Sæl og blessuð Sigrún!

Það er vonandi að aðgerðin gangi vel. Auðvitað er mikið álag á líkamann að fara í svona aðgerð og allt álag getur haft áhrif á brjóstagjöfina. Gæði og magn mjólkurinnar breytist samt ekki mikið. Ég mæli ekkert sérstaklega með að þú hættir brjóstagjöfinni. Hún getur hjálpað þér bæði andlega og líkamlega á erfiðum tímum. En þú mátt vera viðbúin ýmsum sveiflum í henni. Þegar barn er 6 mánaða er venjulega farið að kynna fasta fæðu fyrir því. Það gæti því verið góður tími fyrir þig að byrja svona viku áður. Taka út 1 brjóstagjöf og gefa í staðinn einhvern mat og stoðmjólk eða þurrmjólk úr stútkönnu á eftir. Þegar vikan er liðin ferðu í aðgerðina og við það geturðu látið detta út 1-2 gjafir og gefið annað í staðinn. Þá standa eftir kannski 5 gjafir. Eftir viku tekurðu 1 út og eftir aðra viku 1 og þá standa eftir 3 gjafir. Þeim geturðu haldið ef þú vilt eða minnkað þetta smám saman áfram. Ég gef mér meðaltalstölur í þessu en þú veist hvað ég meina.

Enn og aftur bestu óskir um velgengni.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. júlí 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.