Hlaup og brjóstagjöf

27.12.2005

Sælar ljósmæður.

Ég er með einn gaur 7 ½ mánaða og hann er á brjósti.  Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri í lagi að hlaupa.  Ég hljóp aðeins á æfingu í gær og brjóstin snertu nánast gólfið! Mér fannst þetta mjög óþægilegt og hafði það á tilfinningunni að brjóstin myndu síga meira og meira þar til þau enduðu við hné eða þar um bil. Hvað segið þið?

Kveðja, SGP.

.............................................................................................................

Sæl og blessuð SGP.

Jú, það er allt í lagi að hlaupa en það getur þurft mismunandi mikinn útbúnað til þess. Við erum misjafnlega af guði gerðar og konur sem hafa stærri gerðina af brjóstum þurfa meiri stuðning við þau í hlaupum og stökkum en hinar. Það er svolítið mismunandi hvað konur nota til stuðnings. Þér er alveg óhætt að nota eigið ímyndunarafl eða prófa þig áfram. Margar nota toppa af mismunandi stærð, þykkt og þéttleika. Sumar nota brjóstahaldara, strokka, breið teygjubindi o.fl.,o.fl. Það er gjarnan notað eitthvað tvennt eða þrennt saman. Ég treysti þér alveg til að finna út úr þessu sjálf og skil vel að þú hafi fundið fyrir óþægindum með lítinn eða engan stuðning.

Bestu hlaupakveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2005.