Hnetusmjör með barn á brjósti

13.04.2009

Sæl og takk fyrir frábæran vef!

 Ég var að velta fyrir mér hvort það væri í lagi að borða hnetusmjör með barn á brjósti. Ég er með eina rúmlega 3 mánaða á brjósti. Hef heyrt að það ætti ekki að gefa ungum börnum hnetusmjör og fór að spá í hvort það gilti sama með brjóstamjólkina.

Kveðja . Áhyggjumamman.

 


Sæl og blessuð Áhyggjumamma!

Þetta er mjög skiljanleg spurning þar sem hnetuofnæmi er eitt af þeim verstu. Það er skynsamlegt að bíða með hnetusmjör og hnetur handa börnum fyrsta árið og sérstaklega er þetta mikilvægt ef hnetuofnæmi er í fjölskyldu. Ég hef hins vegar ekki heyrt að þetta skipti nokkru máli í fæði mæðra með börn á brjósti.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. apríl 2009