Spurt og svarað

01. ágúst 2011

Hnútur í brjósti

Sælar!
Ég er með annað barnið mitt á brjósti, eingöngu. Hún verður 5 mánaða á morgun og núna er ég að lenda í smá vandræðum með vinstra brjóst. Í um viku - 10 daga er stelpan búin að drekka mjög ört sem ég tengdi bara við það að hún er að uppgötva heiminn. Kannski að hún þyrfti að fá meira í sig þar sem hún er jú orðin stærri. Í fyrradag byrjaði hún að sofa betur og í nótt vaknaði hún bara einu sinni um nóttina eins og hún hefur vanalega gert frá því hún var 8 vikna. En nú er kominn harður hnútur í vinstra brjóstið sem fer ekki þegar ég legg hana á brjóstið. Hægra brjóstið er líka mjög þanið þó það sé enginn hnútur í því. Brjóstagjöfin hefur gengið eins og í sögu fyrir utan þetta. Hvað á ég að gera? Mamma kom til mín með brjóstapumpu áðan sem ég veit ekki hvort ég eigi að nota. Þetta er svo vont! Er best að halda svona lagað bara út eða hvað? Svo fer að líða að því að stelpan fari að prófa mat. Hverju er best að byrja á? Það er svo langt síðan ég gaf eldra en þá var það banani sem hann fékk fyrst.
Takk fyrir hjálpina! Hildur.

 
Sæl og blessuð Hildur!
Það er hætt við að þú sért að fá þessar ráðleggingar heldur of seint. Það er ákveðið ferli sem hægt er að fara í þegar ástand þessu líkt kemur upp. Það eru kölluð stífluráð og þú ættir að geta fundið hér á síðunni. Þau miða að því að láta barnið sjúga eins vel og kostur er í gegnum ákveðið svæði brjóstsins. Til þess eru notaðir bakstrar og ofurlétt nudd. Yfirleitt er ekki farið út í að pumpa brjóst nema í örfáum undantekningartilfellum. En það er sjálfsagt fyrir þig að leita aðstoðar ef illa gengur eða þú óörugg um hvað best sé að gera. Varðandi fyrsta matinn þá stendur bananinn alltaf fyrir sínu en það er líka vinsælt að byrja á grænmeti til að þau venjist minna sætu bragði fyrst.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1.ágúst 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.