Hnútur í brjósti

05.01.2014
Fyrir fjórum árum eignaðist ég barn og var með það á brjósti fyrsta mánuðinn. En ég var alltaf að fá sýkingu í annað brjóstið og gafst upp á brjóstagjöf í kjölfarið. Nú er ég ólétt að öðru barni og er með lítinn hnút í sama brjósti. Ég er búin að láta skoða hann og það kom í ljós að þetta var þrútinn kirtilvefur í brjóstinu og ekkert við því að gera. Eðlilega hef ég samt áhyggjur af fyrirhugaðri brjóstagjöf með þennan hnút í brjóstinu. Því langar mig að leita ráða og spyrja hvort það séu til einhver ráð við þessu? Er hægt að losna við hnútinn með einhverjum ráðum svo ég þurfi ekki að vera á sýklalyfjakúrum allt brjóstagjafatímabilið?

Sæl og blessuð!
Nei þú átt ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessum hnút í næstu brjóstagjöf. Líkaminn sér um að hann sé afmarkaður frá framleiðslunni og trufli lítið sem ekkert. Það er töluvert inngrip að losna við svona hnúta og það inngrip myndi trufla brjóstagjöfina miklu meira en að láta hann vera. Þú átt ekki að þurfa á sýklalyfjum að halda í næstu brjóstagjöf nema þú fáir sýkingu í brjóst. Og það forðastu með því að halda vörtunum heilum og tryggja sem best rennsli gegnum brjóstin af mjólk.
Vona að vel gangi í þetta sinn.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. janúar 2014.