Hnúður í brjósti

28.05.2008

Ég er búin leita hér yfir svörin en finn ekkert sem samsvarar mínum vanda. Það er lítill hnúður neðarlega á vinstra brjóstinu hjá mér. Þetta losnar við hverja gjöf en er yfirleitt komið aftur í þeirri næstu. Nú drekkur sonur minn (4 vikna) mjög ört þannig þetta stafar ekki af því að brjóstin séu of lengi án þess að vera tæmd. Ég er ekki neitt rauð þarna né með nein hita einkenni þarna. Er þetta eðlilegt eða er þetta eitthvað sem ég þarf að láta kíkja á, t.d. byrjun á stíflu? Sonur minn er það sem er nefnt fljóta týpan og drekkur mjög hratt og er ekki lengi á hvoru brjósti. Frá því að vera svona 8 mín. og tekur yfirleitt eina langa gjöf á dag sem er svona 15-20 mín.

Takk fyrir frábær ráð hér varðandi brjóstagjöf!

Kveðja, Lísbet.


Sæl og blessuð Lísbet.

Það er nú oftast þannig að fengin er skoðun á hnúðum í brjósti jafnvel þótt þeir virðist sakleysislegir. Oftast er það þó bara til málamynda. Það vill segja að skoðandinn er meira að fullvissa sig um að ekkert slæmt sé á ferðinni. Lýsingin hjá þér bendir til að þetta sé saklausa gerðin en eins og ég segi „allur er varinn góður“. Það eru til hnúðar sem eru mjólkurkýli. Þau fyllast af mjólk og tæmast reglulega. Það gæti átt við það sem þú ert að lýsa. En þú færð bara skoðun á þessu og þá veistu hvað þetta er og hvað þú átt að gera.

Gangi þér vel.    

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. maí 2008.