Spurt og svarað

26. febrúar 2004

Horfin brjóstamjólk?

Ég er með rúmlega 4 mánaða dóttur sem hefur nær eingöngu verið á brjósti en fengið þurrmjólk einstöku sinnum ef ég hef nauðsynlega þurft að vera í burtu þar sem ég hef ekki getað mjólkað mig af einhverjum ástæðum.  Síðast liðna 2 daga hefur mjólkin snarminnkað hjá mér og hún nánast ekkert fengið.  Ég hef því gripið til þess ráðs í tvígang að gefa henni þurrmjólk. Getur brjóstamjólk horfið svona allt í einu? Er eitthvað sem ég get gert annað en að láta hana sjúga?

.........................................................................................................................................................

Nei brjóstamjólk getur ekki horfið eitt eða neitt, hún fer ekkert og dettur ekki niður. Mjólk framleiðist í konum eftir því sem af henni er tekið. Hún framleiðist alltaf á meðan barnið sýgur en hættir fljótlega eftir að það hættir að sjúga. En það þarf tvennt til að mjólkin endi í munni barns. Að hún framleiðist (sem við erum búin að afgreiða) og að hún losni úr mjólkurblöðrunum. Til þess að það gerist þarf samdrátt af völdum hormónsins oxýtósín. Við samdráttinn kreistist mjólkin úr blöðrunum og rennur niður í safngeymana. Þar er hún tilbúin fyrir barnið.  Oxýtósínlosun er hægt að trufla með tilfinningum eins og reiði, þreytu, sorg, kvíða, pirring, áhyggjum, leiða, spennu. Þá losnar engin mjólk þrátt fyrir að framleiðslan sé á fullu. Barnið sýgur og sýgur en fær ósköp lítið þótt mjólkin sé þarna í nokkurra sentímetra fjarlægð. Galdurinn er að losa sig (að minnsta kosti tímabundið) við þessar neikvæðu tilfinningar og leyfa mjólkinni að renna. Það má líka nota öll þau ráð sem virkað geta í átt til slökunar.  Að gefa þurrmjólk undir þessum kringumstæðum er eins og að skjóta sig í fótinn. Um leið og barnið fær næringu annars staðar frá þá dregur úr framleiðslu brjóstanna sem því nemur. Þá er vandamálið orðið tvíþætt. Það vantar upp á næga framleiðslu og það vantar líka losun. Ef áfram er gripið til pelans getur verið farinn af stað snjóbolti sem erfitt er að stöðva.

Með baráttukveðjum,                                                                              
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi, 26. febrúar 2004

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.