Spurt og svarað

23. júní 2012

Hormónar og að geta mjólkað

Sælar og takk fyrir stórkostlegan vef!

Ég er 36 ára og geng nú með mitt þriðja barn og er að velta fyrir mér hvort það sé eitthvert samhengi á milli þeirra hormóna sem koma af stað fæðingu og hríðum, og þeirra sem koma að framleiðslu mjólkur? Síðustu tvær meðgöngur hef ég þurft að láta setja mig af stað og hafa dripp allan tímann til að halda hríðum gangandi. Í bæði skiptin hef ég reynt brjóstagjöf en gefist upp eftir 3 mánuði þar sem börnin hafa bara verið að léttast. Ég náði að mæla mest um 40 ml. af mjólk þegar ég mjólkaði mig. Ég hef því endað með þurrmjólkina eina. Mig dreymir um að geta mjólkað eðlilega og reyndi öll ráð til að örva mjólkurmyndun. Mér hefur alltaf liðið vel á mínum meðgöngum og verið frísk. Getur verið að líkaminn hreinlega framleiði ekki þau efni sem til þarf?

Bestu kveðjur.


 

Sæl og blessuð!

Til hamingju með að eiga von á 3ja barninu. Það eru að sumu leyti sömu hormón sem losna við fæðingu og í brjóstagjöf en að sumu leyti allt önnur. Þannig að það er erfitt að setja samasemmerki þar á milli. Það er afar ólíklegt að eitthvað sé að trufla hormónin fyrst þú ert að ganga í 3ja sinn eðlilega með þótt auvitað sé ekki hægt að fullyrða neitt. Það eru til margar sögur um konur sem tókst ekki brjóstagjöf fyrr en í 3ja, 4ða eða 5ta sinn svo heldur bara ótrauð áfram. Aðaláhersluatriðið er að fyrsta brjóstagjöfin verði á fyrsta klukkutímanum eftir fæðingu og að gjafir á fyrstu 2 dögunum verði örar eða á 1-2 klst. fresti eins og barnið getur. Alltaf að leggja á bæði brjóst í hverri gjöf og ekki að fara að hugsa um annarskonar örvun fyrr en 2-3 vikum eftir fæðingu.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. júní 2012.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.