Spurt og svarað

05. nóvember 2006

Hrædd um að hann sé ekki að fá feitu mjólkina

Sælar!

Ég á einn 4 mánaða prins sem ég er eingöngu með á brjósti. Brjóstagjöfin byrjaði mjög brösuglega en vörturnar sprungu til skiptis og þrátt fyrir góða aðstoð hjá brjóstaráðgjöfum náðu þær ekki að gróa nema með hvíld og var talið að þetta stafaði af exemi sem ég sjálf þjáist af (notaði brjóstapumpu á meðan).  Prinsinn hefur alltaf verið frekar erfiður á brjóstinu og ýtir sér frá um leið og mjólkin virðist hætt að flæða og er ég því hrædd um að hann sé ekki að fá feitu mjólkina.  Gæti trúað að þetta vandamál sé til komið vegna þess hve lengi ég var í brasi með vörturnar. Fæ barnið ekki með nokkru móti til að drekka áfram af sama brjósti. Ég er búin að prufa að minnka flæðið í upphafi en allt kemur fyrir ekki. Eruð þið með einhver fleiri ráð sem gætu gagnast mér með þetta stálpað barn?  Er vont fyrir barnið ef hann er bara að fá formjólkina. Hann virðist að vísu dafna ágætlega. Getur verið að hann þurfi að drekka þéttar þegar hann lætur svona?

Kveðja, ein pínu áhyggjufull.

p.s. Tek það fram að ég hef ekki beinan aðgang að brjóstaráðgjafa þar sem ég er út á landi.


Sæl og blessuð „ein pínu áhyggjufull“!

Það er kannski ekki gott að átta sig á hvað er að valda vandræðum hjá þér en lykilsetningin í bréfinu að mínu mati er „hann virðist að vísu dafna ágætlega“. Það er þannig að gjafamynstur barna breytast á brjóstagjafatímanum. Hegðun barna í gjöfum breytist líka með auknum þroska þeirra. Þau geta skipt yfir í að vilja helmingi fleiri gjafir á sólarhring eða helmingi færri. Þau geta líka allt í einu viljað helmingi styttri gjafir. Þau geta skipt yfir í að vilja alls ekki seinna brjóstið eða að vilja stöðugt vera að skipta um brjóst o.s.frv. Það er oft ekki auðvelt að finna skýringu á þessum breytingum og oft bara alls ekki hægt. Á þessum aldri eru börn að mestu leyti farin að stjórna sinni brjóstagjöf sjálf. Það sem móðirin þarf að huga að er: Þroskast barnið eðlilega, stækkar það (vigtun og mæling) og pissar það í nokkrar bleyjur á dag. Hvort barnið fær feita mjólk eða ekki er ekki lengur í þínum höndum. Það er núna nokkuð sem barnið stjórnar og þú getur treyst því fullkomlega til þess. Breytingar á gjafamynstri og atferli barna í gjöfum er nokkuð sem maður aðlagast smátt og smátt. Það er mikilvægt að láta gjafirnar ekki fara út í einhverja baráttu.

Vona að þetta hjálpi.         

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.