Hrár fiskur og brjóstagjöf

20.12.2005

Sælar, og takk kærlega fyrir frábæran og upplýsandi vef.

Nú er farið að styttast í jólin og öll herlegheitin sem þeim fylgja. Ég er gengin 25 vikur og hef grátið það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég megi ekki borða grafinn lax og síld (já, grátið í orðsins fyllstu merkingu :) ). Ég ákvað því um daginn að ég myndi bara taka grafinn lax og maríneraða síld með mér upp á fæðingardeild í mars og háma í mig um leið og barnið væri komið í heiminn. En þá vaknar sú spurning, má borða hráan fisk með barn á brjósti? Ég verð kannski bara að bíða þolinmóð fram að næstu jólum.

Kær kveðja, Birna.

............................................................................................

Sæl og blessuð Birna.

Mér þykir leitt að þú skulir missa af öllum herlegheitunum um jólin. Það er svo vinsælt nú á tímum að borða hráan fisk og hrátt kjöt um hátíðar. En góðu fréttirnar eru þær að þú mátt borða þetta allt saman þegar þú ert með barn á brjósti. Þú mátt þó ekki alveg missa þig. Það fá flestir illt í magann af að háma mikið í sig af einni tegund af einhverju. Það er svo aftur annað mál hvort þú hefur lyst á þessu þegar þú ert komin upp á spítala. Hún vill svolítið breytast lystin á þessum vikum. En sem sagt það er allt í lagi.

Bestu jólakveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. desember 2005.