Spurt og svarað

28. maí 2008

Hvað annað en sveppasýking

Takk fyrir frábæran vef og hef ég notað mér hann mikið frá því ég varð ófrísk.

Dóttir mín er orðin eins árs núna en við höfum verið að berjast við sveppasýkingu að ég held frá því hún var 10 mánaða. Brjóstagjöfin hefur gengið rosa vel frá því hún fæddist og ég aldrei fengið nein sár, stíflur eða neitt og varla stálma í upphafi en svo þegar hún var 10 mánaða fékk ég allt í einu blæðandi sár og þurrk á báðar geirvörturnar og hún var með hvíta skelli í kinnunum en ekki hvíta skán á tungunni. Ég hringdi og við fengum ráleggingar um að nota munangurslyfið fjólubláa. Núna eru komnir rúmir tveir mánuðir síðan þetta byrjaði allt saman og sárin hafa gróið og komið aftur 3 sinnum, hvítu skellirnir hverfa og koma aftur reglulega í munninum hjá henni. Ég sýð allt, snuð, rúmföt allt dót á hverjum degi og hef meðhöndlað okkur báðar í einu.Svo fórum við í 12 mán. skoðun í gær og hjúkkan sagði þetta örugglega bara munangur og sárin koma af því hún sé óróleg á brjóstinu af því hún sé orðin svo stór. Ég er ekki hrifin af þessari útskýringu því þetta hefur aldrei valdið því að ég fái sár á vörturnar ekki í upphafi og heldur ekki þegar óróleikatímabilið var í kring um 3 mánaða. Hún er miklu betri núna á brjóstinu heldur en þá og gjafirnar eru orðnar svo fáar, aðallega á morgnana og kvöldin.Ég las hjá ykkur að stingirnir í brjóstin sem konur fái er það sem greinir í raun sveppasýkingu frá öðrum kvillum í sambandi við brjóstagjöf. Ég hef ekki fengið þessa stingi eftir gjafir en ég hef líka verið mjög fljót að grípa inn í og skola brjóstin vel eftir hverja gjöf. Ég hélt að ég hefði náð að bjarga því en er þetta kannski eitthvað annað sem er að hrjá okkur? Hvað annað getur haft þessi sömu einkenni en ekki verið sveppasýking?Ég verð að viðurkenna að eftir rúma 2 mánuði í þrifagallanum væri ég alveg til í einhverja aðra lausn. Ég er alveg að gefast upp á þessu öllu saman.

Með von um svar.


Sæl og blessuð. 

Ég álít vera litlar líkur á að þetta sem þú lýsir sé eitthvað annað en sveppasýking. Hvítu skellurnar innan í kinnum barnsins geta nánast ekki verið neitt annað. Og það er líklegt að þetta sé síðan sífellt að taka sig upp aftur og aftur. En þá er líka kominn tími á róttækari aðgerðir. Fá önnur lyf. Mér heyrist þú t.d. ekki hafa notað Mycostatin mixtúruna sem mikið er notuð gegn sveppasýkingum á vörtum og stundum eru notuð krem á vörturnar. Svo er líka tímabært að breyta mataræðinu og öðru sem gæti hjálpað. Oftast á þessu stigi sveppasýkingar er gerður skurkur í að finna orsökina fyrir endurtekningunum þannig að það er líka orðið nauðsynlegt fyrir þig.

Vona að þetta gangi.     

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.