Spurt og svarað

18. október 2008

Hvað geri ég vitlaust?

  Kæra ljósmóðir

 Þökk fyrir góðan og ganglegan vef sem hefur stutt mig í  gegnum meðgöngu og fæðingu.Ég er með eina 4 vikna og mér finnst mjólkin ekki  "haldast í brjóstunum" yfir daginn.Hún er dugleg að drekka og eiginlega má  segja að hún "hangi á" allan seinnipart dags.Ég veit ekki hvort það er  vegna þess að hún er svöng eða af því hún finnur til.Hún er með magapílur  og ég er að gefa henni Skírni dropa sem ég geri mér ekki grein fyrir hvort  eru að virka eða ekki.Það eru 3 dagar frá því ég byrjaði að gefa henni þá,  og hún er ennþá að vakna upp með andfælum og gráta og vill bara sofa við  brjóstið og fá sér sopa öðru hvoru.Eftir að hafa "hangið á" nánast  stanslaust í síðustu viku var þyngdaraukningin 250g svo  hjúkrunarfræðingurinn minn sagði mér að henni hefði greinilega ekkert  veitt af þessu. Ég finn mjólkina í brjóstunum á morgnana og fyrripart dags  þegar hún sefur í 1-3 tíma milli gjafa og er kát og "ræðin".Svo koma  þessir hræðilegu seinnipartar þar sem hún vælir og virðist líða svo illa  og þá finnst mér eins og hún klári mjólkina mjög snemma og totti svo tóm  brjóstin.Ég er að taka Alfaalfa og Fenugreek sem ég fékk í Móðurást og  mjólkin jókst til muna við það en samt ekki nóg.Ég kann ekkert á svona mjólkurþurrð því við eigum strák sem er 10 ára og í minningunni voru brjóstin svo stútfull af mjólk  að ég var að springa hvenær sem var sólarhringsins.Ætti ég að hætta að taka hylkin eins og ráðlagt er að gera þegar mjólkin fer að aukast?Ætti ég  að gera ráð fyrir að hún sé svöng og halda áfram að gefa henni brjóstið  eða ætti ég að gefa manninum mínum tækifæri á að leysa mig af og gefa  henni snuð?Hún sefur upp í hjá mér og vaknar ca. 2-3 á nóttu til að  drekka, ætti ég að láta hana frekar sofa í sínu rúmi og taka hana upp og  gefa henni sitjandi á nóttunni?Með von um svör.

Kveðja ungamamma.

 

 

Sæl og blessuð.

Þetta er ekki óeðlileg hegðun hjá barni á fyrstu vikunum en er yfirleitt tímabundin. Þú virðist mikið hafa hugann við að þú finnir fyrir mjólkinni í brjóstunum en það er nokkuð sem þú átt að fara að hætta að finna fyrir. Sérstaklega með annað eða seinni börn. Þá eiga brjóstin að vera mjúk og eymslalaus. Besta tilfinningin er að þau séu „tóm“. Það þýðir að ef allt er eðlilegt þá áttu ekki að finna fyrir neinu. Ef þú færð þá tilfinningu að þau séu „full“ þá er líklega of langt síðan þú gafst brjóst.

Þessi orð „tóm“, „full“, „að springa“ o.s.frv. á náttúrlega aldrei að nota um mjólkandi brjóst. Þetta er bara tilfinning sem konur hafa og á ekkert skylt með mjólkurframleiðslugetu. Eftir fyrstu vikurnar þegar jafnvægi er komast á og brjóstin aðlagast framleiðslunni er best að sem minnst finnist fyrir því sem er að gerast í brjóstunum.

Samsetning mjólkurinnar breytist yfir sólarhringinn þannig að magnið er minnst seinnipart dags en þá er næring hennar mest. Því getur verið jákvætt ef barnið biður mikið um að drekka að gefa skiptigjöf. Ef þér finnst mjólkuraukandi efni hjálpa þá skaltu taka þau en við magaóþægindum barnsins gætirðu reynt ungbarnanudd.

Þú skalt alltaf gefa barninu brjóst þegar það biður um það. Hjúkrunarfræðingurinn sagði jú að hún þyrfti á því að halda. Þú getur prófað að bjóða snuð en ég er viss um að þið fáið öll besta svefninn með að hafa hana uppí hjá ykkur. Eins og ég segi þá á ég von á að þetta sé bara tímabil sem gengur yfir og mundu að áhyggjur geta haft neikvæð áhrif á mjólkurlosun.

Gangi þér vel.    

Katrín Edda Magnúsdóttir

ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi

18 október.2008.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.