Spurt og svarað

08. maí 2008

Hvað getur valdið því að kona ?missi? mjólkina?

Sælar og takk fyrir frábær ráð varðandi brjóstagjöf.

Hvað getur valdið því að kona missi mjólkina? Hafa kaldir fætur og hendur áhrif þar á. En tilfinningarnar? Nú á ég mjög erfiða fæðingu að baki og er lítil í mér og oft ansi grátsækin þessar fyrstu vikur (er með einn tveggja vikna) og ég hef áhyggjur af því að það hafi áhrif á brjóstamjólkina. Hann drekkur hressilega sá stutti, tekur sína dillur og er erfiðari á brjóstunum einn daginn en hinn en samt gengur þetta nú yfirleitt mjög vel hjá okkur. Hann ræður þessu ferli alveg sjálfur og fær brjóst þegar hann biður um. Hef samt alveg gífurlegar áhyggjur af því að missa mjólkina þar sem ég er mjög viðkvæm andlega eftir þetta allt saman.

Með von um svör, nýbökuð móðir.


Sæl og blessuð nýbakaða móðir.

Ef búið er að koma mjólkurframleiðslu vel af stað er fátt sem getur stöðvað hana nema ef vera skyldi það að barnið hætti að sjúga og brjóstin eru ekki mjólkuð í kjölfarið. Það að mjólkurframleiðsla hætti fyrirvaralaust er nánast óþekkt fyrirbæri. Það hefur þó komið fyrir í tengslum við miklar náttúruhamfarir og ofsahræðslu tengda þeim að mjólkurframleiðsla hefur hrapað hressilega en það er nokkuð sem hægt er að laga á nokkrum dögum. Að missa mjólkina er, og aðallega var mistúlkun á því fyrirbæri þegar neikvæðar tilfinningar trufla mjólkurlosun. Þ.e.a.s. mjólkin framleiðist alltaf þegar barnið sýgur en til að hún nái að flæða út úr brjóstunum þarf að verða ákveðin slökun. Ef mikil spenna er í gangi, pirringur, mikil þreyta, sorg eða reiði getur það hindrað þessa losun. Þetta er í sjálfu sér auðlagað með því að útiloka þessar neikvæðu tilfinningar og ná slökun. Það gengur misvel hjá konum. Sumar geta það alltaf, sumar geta það á stuttum tíma, aðrar á  lengri tíma og einstaka kona er í vandræðum með þetta. Það hljómar nú sem þetta sé í góðu lagi hjá þér og ekkert að óttast. Það lenda flestallar konur einhvern tíma í þessum aðstæðum og komast léttilega yfir það ef þær vita hvernig þær eiga að bera sig að. Því miður gerðist það hér áður fyrr að konur kölluðu þetta að „missa“ mjólkina. Þær töldu mjólkina vera hætta að framleiðast og hættu að leggja barnið á brjóst. Þar með var sú brjóstagjöf búin.

Nei, kuldi kemur málinu ekkert við. Hvorki kaldar hendur, fætur, brjóst eða neinn annar líkamshluti.

Vona að áhyggjunum sé létt.              

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.