Spurt og svarað

07. apríl 2006

Hvað má líða langur tími milli gjafa?

Þannig er að ég byrja að vinna um miðjan maí og þá er barnið mitt fimm og hálfs mánaða. Ég mun vinna frá 8-16. Ég vil alls ekki hætta brjóstagjöf, hef hugsað mér að halda áfram þangað til barnið vill sjálft hætta, og maðurinn minn  mun koma með barnið í hádeginu svo ég geti gefið því. Er það nóg? Ætti hann að fá eitthvað annað að borða líka? Barnið tekur ekki pela, hefur aldrei viljað það. Svo er annað, ég hef stundum verið burtu vegna vinnu, í allt að fimm tíma og þá heftur
maðurinn minn reynt að gefa barninu brjóstamjólk en ekkert gengið, sem þýðir að barnið hefur ekkert fengið að borða allan þennan tíma. Mér hefur náttúrulega liðið illa yfir þessu, samt grætur hann ekkert mikið og virðist ekkert vera að svelta. En mín spurning er hvort þetta sé voðalega slæmt fyrir 4 mánaða barn,þ.e að vera án matar í 5 tíma?Já og annað, ef ykkur finnst barnið eigi að fá mat þegar ég byrja að vinna, á hverju á þá að byrja og þarf að byrja fyrr til að þjálfa það í að borða? Vonandi getið þið svarað mér.

Kær kveðja.


Sælar!

Oftast dugar brjóstamjólkin sem eina fæða barnsins fram að 6 mánaða aldri. En þurfi að gefa barninu þegar móðir er í burtu vegna vinnu þá er hægt að gefa móðurmjólk - stundum úr bolla eða úr stútkönnu. Þegar að barnið er orðið 5 og ½ mánaða gamalt - þá má það fara að borða grauta. Það eru mjög góðar leiðbeiningar í bæklingnum Næring ungbarna - sem er í ungbarnaverndarmöppunni - og talað er um að gott sé að byrja með hrísmjölsgraut. Það er svolítið erfitt að svara með tímalengdina á milli þess sem barnið borðar en algengt er að börn séu að sjúga brjóst á þriggja til fjögurra klukkustunda fresti yfir daginn og lengri tími líði yfir nóttina. Ég ráðlegg þér að skoða bæklinginn vel um Næringu ungbarna - hann svarar mörgum spurningum.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. apríl 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.