Hvað verður um okkur þegar börnin eldast

09.06.2009

Góðan daginn!

Ég er móðir 9 mánaða drengs og hef hingað til leitað á þessa síðu til að fá samkennd, upplýsingar og góð ráð. Nú standa málin þannig að mér finnst eins og ég eigi ekki erindi hingað lengur og veit ekki hvert ég á að leita. Sonur minn er ákveðinn og hefur haldið í mömmubrjóst eins og mestu gersemi lífs síns. Það hefur gengið illa að gefa honum fasta fæðu. Hann tekur þó við tilbúnum grautum en kvölmaturinn, soðnar kartöflur og grænmeti renna misljúflega ofan í hann. Þegar hann borðar illa enda ég með hann á brjósti meira en ég vil. Ég vil fara að minnka þetta. Verst þykir mér að vakna á næturnar því ég les alls staðar að börn eigi að sofa heila nótt á þessum aldri. Hvað á ég að gera og hvar get ég fengið ráð ef ég hef ekki áhuga á því að ónáða hjúkrunarfræðinga heilsugæslunnar á smávandamálum eins og þessu? Er engin síða sem aðstoðar okkur mæður sem erum komnar aðeins lengra í því að koma börnunum okkar á legg? Ég glími við sektarkennd að vilja minnka brjóstagjöf og koma honum skrefinu lengra í "yfirfærsluferlinu".

Bestu kveðjur og þakkir fyrir fyrri aðstoð.

 


Sæl og blessuð!

Það er sjálfsagt rétt hjá þér að vettvangar fyrir konur með „eldri“ börn séu færri en fyrir konur með nýfædd. Það er þó þannig að þessi síða er fyrir allt brjóstagjafaferlið sem getur jú staðið yfir í mörg ár. Og heilsugæslan er fyrir allan aldur þannig að fyrir þeim er þetta ekki endilega smávandamál heldur partur af lífinu og verðugt verkefni.

Börn eru misfljót að fara að borða og það er mikill miskilningur að þau taki til matar síns með mikilli gleði þegar þau fá „leyfi“ til. Meirihlutinn er ekkert sérstaklega spenntur fyrir öðrum mat en brjóstamjólk af ýmsum ástæðum. Aðalatriðið er að leyfa þeim að ráða svolítið ferðinni. Hafa í nágrenni við þau „fingurfæði“. Soðið eða hrátt grænmeti í stykkjum. Ávexti í bitum eða annað sem þú leggur áherslu á. Forvitni þeirra rekur þau yfirleitt til að prófa. Þannig læra þau um bragð og áferð á sínum forsendum.

Það er eðlilegt að þú viljir minnka brjóstagjöfina á þessum tíma en það er erfiður tími til breytinga 8-10 mán. Og næturgjafir eru oft þær sem mæðrum finnast notalegastar og halda í lengst. Þannig að þú þarft ekki að taka hana út nema hún sé að trufla þig eitthvað óeðlilega mikið.

Endilega vertu ekki með sektarkennd. Þið hafið þetta bara eins og ykkur finnst best og látið alla gagnrýni sem vind um eyrun þjóta.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. júní 2009.