Spurt og svarað

15. febrúar 2012

Hvaða snuð á að velja

Sælar!

 Ef til þess kemur að barnið mitt fái snuð, þá langar mig að vita hvort ein týpan sé betri en önnur. Tútturnar eru mismunandi, ýmist út silíkoni eða öðrum efnum, geirvörtulaga, kúlulaga og svo aðrar með flötum botni. Ég vil ekki skemma fyrir brjóstagjöfinni og vil auðvitað passa líka upp á tennur og bit hjá barninu. Getið þið gefið mér upplýsingar um þetta?


 

Sæl og blessuð!

Það er mikilvægast að byrja ekki of snemma með snuðið. Oftast er miðað við að barnið sé orðið 3ja vikna þegar það fær snuð. Efnið sem það er gert úr skiptir í raun ekki máli nema að reynt er að forðast latex snuð(brún) því ofnæmi fyrir latexi er vaxandi vandamál. Hvernig það er svo í laginu skiptir líka voða litlu máli. Börn taka gjarna betur við einu lagi en öðru og það er allt í lagi að fara eftir því. Það er þó ekki til neitt sem heitir geirvörtulaga því geirvörtur eru auðvitað afar misjafnar í laginu. Ég held þú sért að meina flöt snuð. Svo eru þessi sem eru slétt og hallandi öðru megin kölluð gómlaga og síðan kúlusnuð. Það er um að gera að prófa sig áfram og finna þannig út hvaða snuð hentar barninu best.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. febrúar 2012.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.