Hve lengi að þorna?

17.08.2010

Hæhæ og takk fyrir frábæra síðu!

Þannig er mál með vexti að ég hætti með strákinn minn á brjósti í byrjun desember. Núna er ágúst og ég er farin að leka aftur. Þegar hann var á brjósti þá skipti ég um föt og Lansinoh brjóstapúða á að meðaltali klukkustundar fresti því að það lak svo mikið. Ég hef síðan orðið vör við dropa og dropa, ekkert alvarlegt samt, og alltaf gula eins og brodd. Síðustu daga hef ég þó verið að fá svona sting í brjóstin eins og kom þegar lak sem mest og núna í morgun láku bara nokkrir hvítir dropar á baðherbergisgólfið. Hvernig stendur á þessu? Er þetta alveg eðlilegt?

Með von um góð svör. Ein ráðvillt.


Sæl og blessuð Ein ráðvillt!

Eins og fram hefur komið áður getur tekið ótrúlega langan tíma að stöðva alla framleiðslu. Það skiptir máli hvernig staðið var að afvenjuninni og hvort einhver örvun verður áfram. Ef einhver örvun verður er hægt að halda framleiðsluferlinu áfram nánast endalaust. Þannig að þá er þetta alveg eðlilegt. Ef svo er ekki þarftu að athuga hvort þú innbyrðir eitthvað sem gæti haft áhrif á hormónin eða jafnvel hvort möguleiki sé á að þú sért orðin ófrísk aftur.

Vona að þetta svari einhverju.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. ágúst 2010
.