Hve lengi getur brjóstamjólk verið aðalfæða?

01.03.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég á eina sem er tæplega 8 mánaða og er enn aðalega á brjósti.  Ég fer að fá áhyggjur af þessu.  Það er erfitt að fá hana til að borða neitt annað en mömmumjólk, frussar öllu út úr sér og klígjar við þessu.  En þar sem er sagt að eftir 6 mánaða þurfi þau að byrja að borða er ég hrædd um að hana fari að vanta vítamín.  Er í lagi að brjóstamjólk sé aðal uppspretta næringu hjá svona gömlu barni? Hve lengi getur brjóstamjólk verið aðalmaturinn þá?

Ég vil taka það fram að hún dafnar vel, er yfir meðalkúrfu í bæði hæð og þyngd, samsvarar sér fullkomlega.  Hún þroskast líka eðlilega.

Kveðja.

 


 

Sæl og blessuð!

Ég myndi breyta setningunni hjá þér „eftir 6 mánaða þurfa þau að byrja að borða“ í „um 6 mánaða má byrja að bjóða þeim aðra fæðu“. Það er ekkert sem þau þurfa. Það er ríkjandi óþolinmæði gagnvart því að koma börnum yfir á fullorðinsfæði. Það liggur ekkert á. Sex mánaða aldurinn er bara viðmið. Sum börn eru tilbúin fyrr en mörg seinna og sum miklu seinna. Brjóstamjólkin er fullkomin fæða handa þeim jafnt sem áður sérstaklega ef móðirin passar vel upp á fæðuval sitt. Venjan er að gefa börnum vítamíndropa frá því þau eru nokkurra vikna og þannig dropar (eða vítamín á öðru formi) eru nægilega viðbót fyrir þau allt fyrsta árið. Þú getur því verið alveg róleg. Farðu bara nógu rólega í að kynna annan mat fyrir henni og þá kemur þetta smám saman. 

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. mars 2007.