Hvenær á að venja af næturgjöfum?

25.06.2006

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég er að velta einu fyrir mér. Ég er með einn 10 mánaða gamlan gutta. Hann er farinn að borða svona flest og borðar yfirleitt vel. Hann er ennþá á brjósti en er farinn að minnka það mikið, er kannski að drekka svona tvisvar sinnum yfir daginn. Hann fær svo að drekka áður en hann fer að sofa. Þrátt fyrir það að borða vel í kvöldmatnum vaknar hann ennþá a.m.k. tvisvar sinnum á nóttu og stundum oftar og vill þá fá að drekka hjá mér. Þetta er alls ekki að angra mig, síður en svo, en hann á það til að vera að vakna ansi ört. Hvenær er svona almennt talað um að venja þau af þessum næturgjöfum? Er kannski betra að gefa honum bara vatn á næturnar?

Allar ráðleggingar vel þegnar:)

Þakka ykkur kærlega fyrir.

Kveðja, Heiða.Sæl og blessuð Heiða!

Þetta er alltaf spurningin um það hvenær þið (þú og barnið) viljið hætta næturgjöfunum. Þær gjafir eru inn í heildarpakkanum þegar verið er að trappa niður gjafirnar. Sumar konur taka þær út alveg til jafns við daggjafir. Hjá þetta gömlu barni verður þá að koma eitthvað í staðinn fyrst um sinn. Það mætti vera vatn eða safi. Ef barnið mótmælir mjög kröftuglega gæti ástæðan verið eitt af tvennu. Annað hvort er barnið ekki tilbúið til að missa af þessari ákveðnu gjöf eða að fæðið yfir sólarhringinn er ekki nægilega vandað og það hreinlega getur ekki misst af henni nema verða verulega hungrað.  

Aðrar konur halda í næturgjafirnar vegna þess að þeim finnst þær notalegar eða að þeim finnst erfiðara að venja af á næturnar. Þér er alveg óhætt að halda næturgjöfunum áfram ef það er ekki að angra þig. Þetta er ekki ástand sem varir til eilífðar heldur er tímabundið og kemur svo aldrei aftur. Þér er óhætt að trúa því að barnið hefur verulegan gróða af öllum sínum gjöfum og þú ert líka að gera þínum kroppi gott til framtíðar.

Svarið við spurningunni: Það er engin almenn regla um hvenær börn eru vanin af næturgjöfum. Það er samkomulagsatriði milli móður og barns og kemur í raun engum öðrum við.

Með bestu óskum um notalegar næturgjafir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. júní 2006.