Spurt og svarað

13. mars 2007

Hvenær ætti að hætta næturgjöfum

Góðan dag og takk kærlega fyrir frábæran vef!

Ég er móðir með fyrsta barnið mitt, 7 mánaða stúlku, sem er náttúrlega alveg yndisleg en ekki skaplaus ;) Hún er farin að borða u.þ.b. 4 máltíðir á dag og er voðalega dugleg að drekka úr stútkönnu og með röri stoðmjólk, vatn og safa. Hún hefur verið töluvert á brjósti með hingað til en er núna um það bil hætt að drekka á daginn en vill drekka á kvöldin og nóttunni. Ég er að fara að vinna eftir örfáar vikur og þá mun hún ekki drekka neitt yfir daginn (frá 7-16 líklega) en ég geri fastlega ráð fyrir hún vilji halda sínum kvöld og næturgjöfum áfram þar sem hún er mikið brjóstabarn og tekur hvorki snuð né pela. Fyrirspurnin mín snýst um það hvort það geri henni einhvern óleik uppeldislega séð að vera á brjósti á kvöldin og nóttunni eitthvað lengur. Þetta hljómar kannski fáránlega en ég spyr vegna utanaðkomandi þrýstings um að láta hana hætta á brjósti alveg og þá sérstaklega á nóttunni. Stúlkan mín er mjög ákveðin með það að bara mamma má svæfa og svo vill hún brjóst yfir nóttina (þetta reyndar veldur töluverðum vandræðum þegar ég þarf að komast út af og til) og nú er svo komið að fólk er farið að hneykslast mikið á mér að leyfa stúlkunni að komast upp með þessa „frekju“ og ég eigi ekki að „dekra“ hana því það muni bara enda með því hún verði slæmur unglingur ;)

Ég fór með hana til svefnráðgjafa en hann benti mér á að láta hana bara væla á nóttunni þegar hún vaknar og hvorki gefa henni brjóst né stútkönnu - sem ég get ekki skrifað undir.

Fyrirspurnin mín snýr því að því hvort það sé einhver aldur þar sem þið mælið með því að maður hætti næturgjöfum. Ég ætla ekki að hafa hana á brjósti næstu árin en er að tala um einhverja mánuði enn. Sjálf er ég á þeirri skoðun að þessar gjafir muni taka enda þegar barnið er tilbúið til þess og að ég geti þá frekar reynt að sveigja hana frá þeim mjúklega á löngum tíma en er orðin langþreytt á endalausum ábendingum frá fólki í kringum mig (og ungbarnaeftirlitinu) að nú verði hún að hætta þessu nætursötri og þetta muni bara bitna á henni seinna ef ég ætli að halda þessu dekri áfram. Mér finnst hún svo lítil ennþá - en þegar eitthvað er sagt við mann nógu oft fer maður að efast.

Með von um svör og jafnvel pepp :)

Ein mjólkandi mamma.


Sæl og blessuð „ein mjólkandi mamma“!

Mér þykir það leitt að þú skulir vera ein af þeim fjölmörgu sem verða fyrir þessum utanaðkomandi þrýsting og afskiptasemi fólks sem er að skipta sér af því sem því kemur alls ekkert við. Brjóstagjöf er alltaf einkamál móður og barns og kemur engum öðrum við. Það er mjög algengt að brjóstagjafamynstrið breytist þegar börn eru byrjuð að borða og þá einmitt í þá átt sem það hefur gert hjá þér. Það er mjög eðlilegt og fínt hvort sem maður lítur á það frá uppeldislegu, næringarlegu eða þroskasjónarmiði. Börn kalla eftir því sem þau vantar m.t.t. næringar, örvunar, félagsskapar og mannlegrar nærveru og ég veit ekki um neinn sem kallar það frekju eða dekur nema þá sem hafa ekki hlotið það sjálfir eða ekki veitt sínum börnum það. Það veit það auðvitað enginn sem ekki hefur upplifað hve ómetanlega gefandi þessar næturgjafir geta verið. Og þær koma aldrei aftur.  

Það er enginn sérstakur aldur sem mælt er með að hætta næturgjöfum og í mjög mörgum tilfellum er það sú gjöf sem stendur eftir lengst. Oft er talað um að erfitt sé að venja börn af gjöfum á aldrinum 8-10 mánana en eftir það eru þau tilbúnari.

Þín skoðun er náttúrlega sú rétta. Barn hættir á brjósti þegar það er tilbúið til þess. Ef það er enginn þrýstingur á það gerist það samt af sjálfu sér. Ef maður vill sjálfur stjórna þessu þá gerir maður það á eins blíðan hátt og manni er unnt. Ég get því miður ekki gefið þér góð ráð varðandi utanaðkomandi afskiptasemina önnur en að leiða hana hjá þér á kurteislegan hátt. Ég veit að mæður eiga miserfitt með það. Ég ráðlegg þér að segja við þig í spegli x3 á dag: „Ég er frábær móðir og er að gera það sem mér finnst best fyrir okkur mæðgur. Við tvær ráðum hvernig við höfum þetta“.

Með baráttukveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.