Hvenær byrja blæðingar aftur eftir barnsburð?

16.12.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Nota mér oft að fletta upp í gömlum svörum hjá ykkur.

Málið er þannig að ég átti skvísu fyrir 9 mánuðum og ég er ekki enn byrjuð á túr. Er það alveg eðlilegt? Hún er enn á brjósti en borðar með þrisvar á dag en er samt talsverð brjóstakella. Fær ekki lengur að drekka á nóttunni samt. Er brjóstagjöfin að koma í veg fyrir að byrji á túr? Farin að hafa smá áhyggjur af þessu.

Takk aftur


Sæl og blessuð.

Eins og fram hefur komið áður er mjög einstaklingsbundið hve lengi brjóstagjöfin virkar sem vörn. Það dregur mjög úr vörninni þegar börn byrja að borða og brjóstagjöfin verður óreglulegri. Hún virkar samt að einhverju leyti áfram. Það getur því verið að hafa áhrif hjá þér en bara að hluta til. Þú getur haft egglos hvenær sem er en það getur líka verið að hormónabúskapurinn sé að koma í veg fyrir að það gerist. Já, þetta getur verið alveg eðlilegt.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. desember 2007.