Hvenær er æskilegt að hætta næturgjöfum?

08.05.2006

Sælar og takk fyrir góð svör!

Ég er tiltölulega nýbökuð móðir og er að velta því fyrir mér hvenær er æskilegt að venja barnið af brjóstagjöf á næturnar? Er það þegar barnið fer að borða fastan mat eða miklu fyrr?

Með fyrirfram þökkum frá einni nýbakaðri.


Sæl og blessuð.

Yfirleitt er ekkert hugsað um að venja barn af næturgjöfum fyrstu mánuðina. Þeim er eðlilegt að þurfa 1-3 gjafir á nóttu. Það stendur mislengi eftir einstaklingum. Sum hætta fljótlega sjálf næturgjöfum á meðan önnur þurfa þær mjög lengi. Þetta getur líka farið eftir efnasamsetningu mjólkurinnar því hún er alltaf mismunandi eftir konum. Þér er alltaf óhætt að trúa barninu þínu. Ef það biður um að fá að drekka um nótt þá er það svangt.

Börn hætta ekkert endilega næturgjöfum þegar þau byrja að borða fasta fæðu. Þvert á móti þurfa þau oft meira á þeim að halda þá því þau eru jú að skipta yfir í næringarlega síðri fæðu. Það er oft ekki fyrr en dálítið er liðið frá því þau byrjuðu á annarri fæðu sem næturgjafir fara að týna tölunni.

Vona að þetta svari spurningunni. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2006.