Hvenær er óhætt að fá sér tattú?

13.04.2008

Vinkona gaf mér „gjafabréf“ í tattú (hún þekkir flúrarann) í afmælisgjöf, en mig hafði lengi langað í.  Þá fór ég að pæla í hvað ég vildi fá en gat aldrei ákveðið mig. Svo varð ég ólétt og þá ákvað ég að það væri tilvalið að fá mér nafn barnsins á mig þegar það væri ákveðið. Nú er drengurinn fæddur og er orðinn 2 mánaða og hann er á brjósti. Ég veit að það er í lagi að fá sér tattúveraðar augnabrúnir af því að þau rista svo grunnt, en svo var ég að lesa mér til um hvernig tattú eru framkvæmd og þá er víst tattúað í húðlag nr. 2 svo ég var að spá hvort það væri þess vegna hættulegt að fá mér strax, á meðan strákurinn er ennþá á brjósti?


Sæl og blessuð!

Það er í sjálfu sér í lagi að fá sér tattú. En ég held að það sé skynsamlegt að bíða í nokkra mánuði í viðbót. Þó að það sé ekki nema til að hormónaáhrif á húðina hafi minnkað. Ef þetta á að vera á stað sem stækkar á meðgöngunni gæti líka verið betra að bíða lengur en skemur. Gangi þér vel þegar að því kemur.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. apríl 2008.