Hvenær eru brjóstin alveg þurrkuð upp?

11.11.2007

Sæl og blessuð.

Ég þarf að fara í geislavirkt joð vegna skjaldkirtilskrabbameins en er með barn á brjósti. Verð að hætta brjóstagjöfinni áður því ég má alls ekki gefa brjóst á eftir. Sem betur fer fæ ég að hafa barnið mitt á brjósti í 9 mánuði, þurfti ekki að fara í þessa meðferð strax eftir fæðinguna. Er samt frekar ósátt við að geta ekki gefið henni lengur og hugsa um það í næstum hverri gjöf. Var með fyrra barn til 18 mánaða en þá hætti hún sjálf.Ég fer í geislajoðið 1 mars og þá þarf ég að vera búin að þurrka brjóstin alveg. Hvernig væri best fyrir mig að gera þetta og hvenær veit maður að brjóstin séu orðin alveg þurr?

Bestu kveðjur, SÞ.


Sæl og blessuð SÞ

Það er svolítið erfitt að segja til um hvenær mjólkin er alveg horfin úr brjóstunum því það er misjafnt milli kvenna. Yfirleitt er talað um 1 mánuð frá því síðasta gjöf var gefin en það getur teygst upp í nokkra mánuði. Þú skalt því gefa því a.m.k. mánuð. Síðan er það tíminn sem fer í afvenjunina. Þá er oft verið að tala um 4-8 vikur. Það fer að sjálfsögðu eftir því hversu hratt er hætt en almennar ráðleggingar hljóða upp á 7 vikur. Miðað við þessa útreikninga þyrftirðu að byrja afvenjun í síðasta lagi um miðjan desember.  Ég vona að þetta gangi vel hjá þér og ekki vera að eyða orku í eftirsjá eftir brjóstagjöfinni. Það er miklu mikilvægara að þú fáir þína meðferð. Og fyrstu mánuðir brjóstagjafar eru jú þeir mikilvægustu þannig að þú verður búin að gefa barni þínu það sem það á eftir að búa að alla ævi. Horfðu svo bara fram á við.       

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2007.