Hvenær má gefa barni pela í "neyð"?

17.04.2011
Ég er með 7 vikna gamlan son minn á brjósti og  var með sár á vörtunum fyrstu 4 vikurnar. Núna sýgur hann rétt svo sárin hafa gróið og brjóstagjöfin gengur vel. Ég ætla að vera með hann á brjósti eins lengi og mögulegt er. Það gæti komið upp sú staða að amma hans þurfi að gefa honum ef við hjónin myndum skjótast í leikhús saman til þess að gera okkur dagamun. Hvenær er í lagi að gefa honum pela í svona tilfellum? þarf hann að vera búinn að ná einhverjum vissum aldri? Og hvernig pela ætti ég að gefa honum? Með túttu sem er lík vörtunni eða þá sem er eins og snuðið hans?
Vonandi getið þið hjálpað mér. Takk, takk.
 
Sæl og blessuð!
Það er oftast talað um að það sé í lagi að gefa börnum pela eftir að 4ra vikna  aldri er náð. Þetta getur þó verið svolítið mismunandi milli barna. Þitt barn er örugglega nógu gamalt. Og þú velur þá túttu sem þér líkar best. Það skiptir engu meginmáli.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. apríl 2011.