Hvenær mega börn hætta nætugjöfum

11.05.2011
Sælar og takk fyrir frábæran vef!
Er að velta því fyrir mér hvenær krílin eru líkamlega tilbúin að hætta næturgjöfum að því gefnu að þau ákveði það sjálf? Dóttir mín er rúmlega 10 vikna og hefur frá um 2ja vikna aldri bara fengið þurrmjólk. Hún er fædd 2.820g og hefur dafnað vel og vegur nú tæp 5 kg. Fyrir þremur dögum fór hún að taka upp á því að sofa frá kl. 20.00 á kvöldin til 6 á morgnana án þess að drekka. Fram að því hafði hún alltaf fengið pela við ellefuleytið og aftur við þrjúleytið og svo vaknað undir morgunn og fengið líka þá. Tek fram að þessar nætur sem hún hefur sofið hef ég reynt að gefa henni um miðnætti en hún hefur bara sofnað. Mér finnst 10 tímar án matar svolítið langur tími fyrir 10 vikna barn. Ég hef reyndar tekið eftir að nú drekkur hún meira á daginn og fær því sama magn yfir sólarhringinn þrátt fyrir að sleppa þessum 2 næturgjöfum. Má ég leyfa henni að sofa eða ætti ég halda áfram að reyna bæta inn einni gjöf?
Kv. Fjólab.
 
Sæl og blessuð Fjólab!
Þegar barn heilbrigt og þrífst eðlilega er almenna reglan að trufla ekki svefn þeirra. Ég sé ekkert athugavert við það að barnið taki einn langan blund og bæti sér það svo upp eins og þú ert að lýsa. Þér er óhætt að leyfa henni að sofa.
Góðar óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. maí 2011.