Spurt og svarað

21. febrúar 2007

Hvenær og hvernig á að mjólka sig?

Góðan dag.

Ég er með fyrirspurn varðandi mjólkun. Ég hef reynt að finna allt og lesa um það sem þið hafið skrifað um mjólkun en ég er ekki með það alveg á hreinu hvenær, hvernig og hversu oft skal mjólka. Ég er með eina á brjósti og gengur gjöfin vel. Mig langar samt sem áður að safna mjólk til að eiga svo aðrir geta gefið henni ef ég þyrfti að fara frá. Það líða yfirleitt 2-3 tímar á milli gjafa hjá mér á daginn og hún tekur yfirleitt bara annað brjóstið í einu en stundum drekkur hún úr báðum en þá minna úr seinna brjóstinu. Mínar spurningar eru eftirfarandi:

  1. Ætti ég að mjólka mig strax eftir að ég er búin að gefa henni eða á ég að mjólka mig þegar t.d. liðinn er 1 til 1 og hálfur tími frá síðustu gjöf?
  2. Á ég að mjólka bæði brjóstin, það brjóst sem hún drakk úr í síðustu gjöf eða það brjóst sem hún drakk ekki eða lítið úr?
  3. Á ég að mjólka mig eftir eða á milli hverja gjöf yfir daginn eða bara einu sinni á dag eða jafnvel sjaldnar?

Ég held að þetta sé komið hjá mér. Takk kærlega fyrir frábæran vef.

Bestu kveðjur, Ein ráðvillt.



Sælar.

Það er alltaf spurning hvort eigi að vera mjólka svona bara til að safna mjólk. Ég sé að þú ert að gefa henni ansi oft á 2 til 3 tíma fresti yfir daginn - sem er gott mál en það er frekar mikið að bæta við að mjólka sig líka.  Annað sem getur haft áhrif er, að þegar mæður fara að mjalta sig - þá eykst mjólkurframleiðslan við það og það getur stundum verið til óþæginda. Ég myndi ráðleggja þér að helst ekki mjólka nema að þurfa þess nauðsynlega. Og ef þú þarf þess þá er líklega best að mjólka strax og hún er búin og þá úr því brjósti sem hún drakk lítið sem ekkert úr og þá bara einu sinni á dag. Gangi þér vel.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. febrúar 2007.





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.