Spurt og svarað

25. júní 2006

Hver er brjóstamjólkurþörf barna í millilítrum?

Sæl!

Ég var að spá í hver er meðal mjólkurþörf barna í millilítrum talið miðað við aldur ef eingöngu er gefin brjóstamjólk?


Sæl og blessuð.

Við þinni spurningu er ekkert svar til. Ef þú værir að spyrja um þurrmjólk væri svarið tiltölulega einfalt. Þurrmjólk er alltaf eins. Blöndunarhlutfallið breytist reyndar með hækkandi aldri barnsins en magnið er nokkuð föst stærð eftir skema. Því er ekki að heilsa með brjóstamjólk. Brjóstamjólk er mjög breytilegur vökvi að samsetningu. Hún breytist í gjöfinni, er þunn í byrjun en þykknar svo eftir því sem á líður. Hún er breytileg yfir daginn, er meiri og þynnri fyrri hluta dags en minni og feitari seinni hlutann. Hún er  breytileg milli daga, eftir fæði móður og ytri aðstæðum. Hún er breytileg milli vikna þ.e.a.s. samsetning hennar breytist með auknum þroska barnsins. Hún er breytileg milli kvenna. Hver kona framleiðir eilítið öðru vísi mjólk en aðrar konur. Hún er breytileg milli brjósta, sem hefur verið sýnt fram á með rannsóknum. Það er því útilokað að segja til um hver brjóstamjólkurþörf barna er í millilítrum talið. Það er talið heppilegast að treysta barninu til að segja til um hve mikið það þarf en ef sýnt er óyggjandi fram á að því sé ekki treystandi til þess vegna veikinda eða annars er reynt að fara eftir ákveðnu kerfi gjafafjölda, lengda og skiptingu milli brjósta. Þá er í raun verið að þreifa sig áfram og reyna að giska á hvað hentar þessu ákveðna barni best.  Vona að þetta svari spurningunni.

Bestu brjóstamjólkurkveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. júní 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.