Spurt og svarað

04. ágúst 2008

Hver er eðlileg þyngdaraukning brjóstabarna á viku?

Sælar og þakkir fyrir frábæran vef.

Mig langar aðeins að forvitnast um þyngdaraukningu brjóstabarna. Hver er eðlileg þyngdaraukning brjóstabarna á viku? Ég veit að öll börn eru mismunandi en mig langar að vita hvað er meðal þyngdaraukning og hvort hún geti orðið of mikil eða er öll þyngdaraukning af hinu góða?

Ég hef lesið það áður á síðunni ykkar að börn sem eru á brjósti þyngist öðruvísi en börn sem eru á þurrmjólk, af hverju er það? Einnig finnst mér líka mjög algengt svona í kringum mig að börn sem eru á þurrmjólk séu að þyngjast hraðar en brjóstabörn, er það rétt hjá mér?

Sjálf á ég barn sem er rúmlega 3 vikna og er hún eingöngu á brjósti og er að þyngjast um ca 250gr á 8-9 dögum. Mér finnst það voðalega lítið þar sem ég veit um brjósta og þurrmjólkurbörn sem eru að þyngjast um alveg 350-450 gr á viku og þá fer ég alltaf að spá í því hvort stelpan mín sé að fá nóg hjá mér en ég finn engar góðar upplýsingar um hvað er "eðlileg"
þyngdaraukning.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.

Það er venjulegast að talað sé um lágmarksþyngdaraukningu á viku. Það eru 110 gr. en minnkar svo niður í 85 gr á viku eftir 3ja mánaða aldurinn. Það ekkert hámark en þarna er líka bara verið að tala um brjóstamjólkurbörn. Þau þyngjast oft mishratt milli vikna þannig að þess vegna er erfitt að setja hámark. Þau geta fitnað ansi hressilega fyrstu mánuðina en hrista það svo auðveldlega af sér með aukinni hreyfingu.

Með börn á þurrmjólk gilda aðrar reglur. Þau þyngjast yfirleitt hraðar en brjóstabörn sérstaklega fyrstu 3 mánuðina og það þarf stundum að setja þak á þau. Það þýðir að þeim er hættara við að þyngjast of mikið og þeim getur reynst erfitt að losna við ungbarnafituna eða að þau vilja fitna aftur seinna (jafnvel á fullorðinsaldri).

Vona að þetta svari spurningum þínum.  

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. ágúst 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.