Spurt og svarað

07. febrúar 2010

Hvernig brjóstamjólk ber sjúkdóma

Í svari ykkar við fyrirspurn er ber nafnið lánsbrjóst kemur fram að sumir sjúkdómar geti smitast með móðurmjólkinni og því ætti ekki að gefa barni sínu lánsbrjóst (þ.e.a.s. brjóstamjólk annarrar konu). Hvaða sjúkdómar eru þetta? Geta þær smitað manns eigið barn eða einungis annarra og ef svo er afhverju er svo? Hvernig er það læknisfræðilega hægt að smita með mjólkinni? Þá á ég t.d. við eru það sjúkdómar móður sem smitast út í mjólkina? Gætuð þið bent á einhverjar heimildir fyrir þessu?

Takk fyrir.


 

Það eru í raun nokkuð margir sjúkdómar sem koma til greina. Margir eru mjög sjaldgæfir. Þeir eru líka misalvarlegir. Til að nefna einhverja nefni ég t.d. HIV eða alnæmi, aktíva berkla, lifrarbólgu, HTLV-1 og Cytomeglovírus. Þeir geta smitað manns eigið barn en það þarf yfirleitt sérstakar aðstæður til og er mun ólíklegra því móðir myndar varnarefni. Læknisfræðilega fer sýkill yfir í mjólk úr blóði og þaðan til barnsins. Barnið þarf oftast að vera illa í stakk búið til að verjast viðkomandi sýkli t. d. fætt fyrir tímann, veikt o.s.frv. Með aukinni þekkingu á þessu sviði var tekin sú ákvörðun að mæla ekki með gjöf mjólkur anarrar konu en móður nema mjólkin væri meðhöndluð á ákveðin hátt eins og gert er í mjólkurbönkum. Heimild er t.d.“Breastfeeding,a guide for the medical profession“ eftir Ruth A Lawrence en margar stærri bækur um brjóstagjöf hafa kafla um þessi atriði.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. febrúar 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.