Hvernig er best að gefa mjólkaða brjóstamjólk

25.03.2007

Sæl og blessuð!

Bestu þakkir fyrir góðan vef og gagnlegar upplýsingar. Ég á fimm vikna strák og hef nú fjárfest í lítilli rafmagnspumpu til að getað mjólkað mig og skroppið frá drengnum í meira en 2 klukkustundir. Mig langar að vita hvernig er best að gefa drengnum mjólkina. Úr staupi eða með sprautu? Hvenær er mælt er með að fara að gefa mjólkaða brjóstamjólk úr pela?

Með fyrirfram þökk, Ella.


Sæl og blessuð!

Í fyrstu held ég að það sé best að gefa honum mjólkina úr staupi, hann á að kunna að drekka úr staupi. Hvenær heppilegt er að gefa úr pela er oftast matsatriði hjá foreldrum, ég held að þú verðir svolítið að prufa þig áfram með þetta því hvert barn er einstakt. Sum sjúga pela og það er ekkert mál og taka brjóstið vel en svo er önnur sem vilja alls ekki sjúga pelann, svo móðirin verður að meta pelagjöfina út frá barninu. Svo er líka til fingurgjöf, þá sýgur barnið litla sondu/slöngu sem fest er við fingur og endinn á slöngunni er í mjólkinni - þannig að það eru nokkrir möguleikar fyrir hendi.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. mars 2007.