Hvernig er best að haga mjólkun?

09.01.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Þannig er mál með vexti að ég átti stúlku í nóvemberlok. Hún tekur brjóst og allt hefur gengið vel. Ég er að fara á námskeið í febrúar einu sinni til tvisvar í viku um kvöldmatarleytið, þá verður hún orðin 13 vikna.  Mig langar að vita hvernig er best að haga mjólkun (ég á Avent handpumpu) og hversu mikið ég á að eiga í gjöf. Hef verið að lesa mér til en upplýsingarnar eru eitthvað misvísandi.

Kærar þakkir.


Sæl og blessuð.

Það getur verið ágætt fyrir þig að vera búin að undirbúa þig svolítið. Þá geturðu átt nokkra skammta tilbúna í frysti. Þú getur mjólkað bæði brjóstin milli tveggja brjóstagjafa einhvern tíma fyrri hluta dags. Ef þú mjólkar þig tvö skipti t.d. með 2-3 daga bili þá ættirðu að eiga í eina gjöf. Það gæti verið á bilinu 100-150 ml (það er svolítið misjafnt hvernig konum gengur að mjólka sig). Ekki láta hugfallast ef þú nærð þessu ekki. Þá ferðu bara 1-2 skipti í viðbót. Þú getur fryst mjólkina í litlum skömmtum.  Sá sem passar svo barnið á meðan þú ert á námskeiðinu getur hitað lítinn skammt og gefið barninu. Ef það vill svo meira má hita annan skammt. Brjóstamjólk er alltaf hituð í vatnsbaði en ekki í örbylgjuofni. Það mætti hins vegar taka hana úr frysti og setja í ísskáp um hádegið þannig að hún væri nokkurn vegin þiðin um kvöldið.

Vona að þetta hjálpi.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. janúar 2007.