Spurt og svarað

09. febrúar 2006

Hvernig fæ ég barnið til að opna munninn nægjanlega?

Sælar!

Ég eignaðist son fyrir tæpum mánuði síðan og hef síðan þá átt í vandræðum með að fá hann til að opna munninn nægilega þannig að hann taki brjóstið rétt og á því við aumar geirvörtur að stríða. Eigið þið einhver ráð hvað það varðar? Hvernig ég get fengið drenginn til að opna munninn þannig að hann taki geirvörtuna rétt?

Með fyrirfram þökk.

.......................................................................................

Sæl og blessuð!

Það sem talin er heppilegasta aðferðin til að fá barn til að opna munninn almennilega er örvun. Það er sem sagt snertiörvun á munnsvæði. Flestar mæður nota geirvörtuna til að ýta í varir og strjúka svæðið í kring. Sum börn svara líka vel við snertiörvun á nef. Ef vartan er mjög mjúk nota sumar konur fingurinn á sér. Yfirleitt gefur hreyfingin að ofan og niður besta raun. Hjá ákveðnum hóp barna dugar ekkert nema vökvaörvun, þ.e.a.s. að kreista út smá mjólk og láta hana drjúpa á varirnar eða inn í munninn. Þetta tekur mislangan tíma hjá mismunandi börnum en barn sem er svangt tekur fljótar við sér.  Það gefur ekki góða raun að nota fingur sína til að þvinga munninn opinn ef um heilbrigt barn er að ræða og það getur truflað viðbragðið til lengri tíma litið. En börn sem eru eitthvað minnimáttar njóta oft góðs af þeirri aðferð. Ef þú verður mikið lengur í vandræðum með þennan þátt ráðlegg ég þér að þiggja aðstoð við að læra að gera þetta betur.

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. febrúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.