Spurt og svarað

17. febrúar 2008

Hvernig fara brjóstið og pelinn best saman?

Sæl!

Dóttir mín er 4 vikna gömul og mjög lystug. Hún fær brjóstamjólk úr brjóstinu og líka úr pela af og til. Hún er alltaf MJÖG svöng og þyngist líka vel og sefur allt að 5 tíma. Sem dæmi drakk hún 120 ml úr pela í gærkvöldi og svo drakk hún kröftuglega úr brjóstinu í ríflega 30 mín eftir það. Þegar hungrið verður mikið hjá henni verður hún gríðarlega pirruð og öskrar á brjóstið ef það framleiðir ekki nægilega hratt mjólk handa henni, auk þess sem hún togar í geirvörturnar og meiðir mig. Á nóttunni og morgnana drekkur hún hins vegar án vandræða. Nú ætti að vera nægilega mikil framleiðsla handa henni, þar sem ég hef enn ekki gefið henni þurrmjólk en samt verður hún mjög reið, yfirleitt á kvöldin. Ég reyni að leysa þetta vandamál með því að gefa henni pela með brjóstamjólk sem ábót á kvöldin og ég játa það að þurrmjólkin freistar mín mikið. Mig langar gjarnan að halda áfram að geta gefið henni pela því ég met það mikils að geta aðeins brugðið mér aðeins frá og leyft pabba hennar að njóta hennar.

Gætir þú ráðlagt mér hvernig ég get dregið úr pirringnum án þess að hætta alveg að gefa henni pela með brjóstamjólk.


Sæl og blessuð.

Kvöldpirringur er eitt af því sem flokkast undir eðlilega hegðun brjóstabarna og í raun flestra barna. Það hefur sínar ýmsu ástæður sem of langt er upp að telja hér. Það sem yfirleitt er talið gott ráð við kvöldpirring er að gefa barni með skiptigjöf. Það er að segja gefa stutt af brjósti 1 og skipta yfir á brjóst 2. Gefa enn styttra þar og skipta svo yfir á brjóst 1. Gefa stutt og skipta yfir á brjóst 2 o.s.frv. Þetta gerir það að verkum að barnið fær eins mikið af þykkri eftirmiðdagsmjólk og hægt er. Önnur ráð fela í sér að skapa rólegar, þægilegar aðstæður, nudd o.s.frv. Að loknu kvöldpirringstímabili kemur yfirleitt lengsti blundur sólarhringsins. Það er yfirleitt ekki talið það heppilegasta að gefa barni fast á þessu tímabili mjólk sem er mjólkuð á öðrum tíma dagsins því það er ekki það sem barnið sækist eftir. Þannig að þetta er ekki ástundað nema rík ástæða sé til og þá eins sjaldan og hægt er. Ég ráðlegg þér því að gefa skiptigjöf eins oft og þú getur á kvöldin og aðeins pela með brjóstamjólk þegar þú ert ekki til staðar.

Það ætti ekki að vera nein freisting fyrir þig að gefa þurrmjólk ef þú ert með fína mjólkurframleiðslu. Reyndu frekar að aðlaga brjóstagjöfina að háttum ykkar. Það er mjög langt því frá að barnið vilji eða þurfi þurrmjólk. Það gerir barnið viðkvæmara fyrir sýkingum og þó það virki ekki stórmál þegar maður hefur ekki lent í því þá er annað mál þegar á hólminn er komið. Svo er verið að gefa ofnæmisvöldum tækifæri á að komast að og það er líka mikið mál fyrir þá sem í lenda.

Vona að þetta hjálpi.   

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. febrúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.