Hvernig heldur maður sem lengst í brjóstamjólkina?

16.01.2006

Hæ, hæ!

Nú styttist í mitt fyrsta kríli og ég vara að velta fyrir mér hvernig heldur maður sem lengst í brjóstamjólkina? Mér finnst mjög algengt eða mikið um að konur séu að hætta mjólka 3-4 mánuðum eftir fæðingu.

........................................................................................................

Sæl og blessuð!

Það er spennandi að bíða eftir sínu fyrsta barni og mér finnst mjög jákvætt að þú sért að hugsa um brjóstagjöfina og hvernig þú getir verið sem lengst með barnið á brjósti.

Það er mjög gott að lesa sér til um brjóstagjöfina í bókum og á netinu og fara á foreldrafræðslunámskeið á meðgöngunni. Þegar barnið er fætt, skaltu biðja ljósmóðurina að aðstoða þig við að leggja barnið á brjóst og fylgjast með að barnið taki brjóstið rétt, það skiptir miklu máli fyrir framhaldið. Það er best að leyfa barninu að sjúga brjóstið þegar það vill því að þegar barnið sýgur brjóstið er það líka að framleiða meiri mjólk. Jákvætt hugarfar hefur heilmikið að segja, þ.e. að hafa sjálf trú á að brjóstagjöfin eigi eftir að ganga vel. Fyrstu sólarhringana, þegar brjóstagjöfin er að komast vel á veg, er mikilvægt að fá nægilega hvíld og borða og drekka reglulega og fá einhvern til að hjálpa sér, annaðhvort pabbann eða aðra nákomna, ekki vera feimin við að þiggja hjálp. Þú veltir fyrir þér að algengt sé að konur séu að hætta að mjólka 3-4 mánuðum eftir fæðingu. Stundum er það út af því að farið er að gefa þurrmjólk með, of snemma og oft of mikið, því að mæðrum finnst of mikil binding að vera með barnið eingöngu á brjósti og vilja að aðrir geti gripið inn í að passa barnið. Þá minnkar mjólkurframleiðslan oft mjög hratt og barnið fer að hafna brjóstinu. Það geta verið aðrar ástæður fyrir minnkaðri framleiðslu en þá er mjög gott að leita til fagfólks og fá aðstoð og ráðleggingar.

Gangi þér vel!

Ingibjörg Baldursdóttir,
hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi,
16. janúar 2006.