Hvers vegna ætti ekki að fá brjóstapumpu að láni?

17.07.2006

Sælar og takk fyrir góða vefsíðu!

Mig langar að spyrja hvers vegna er ekki mælt með því að fá lánaðar brjóstapumpur. Ef pumpan og allir hlutar hennar eru soðnir vel, hvað er þá sem mælir gegn því að ég noti sömu pumpu og systir mín notaði?


Sæl og blessuð.

Þetta er aðallega gert sem varúðarráðstöfun og er ágætisregla sem ætti að viðhafa sem oftast. Mjaltapumpuhlutar eru með ýmsum krókum og kimum sem er miserfitt að þrífa vel. Þetta fer þó eftir gerðum pumpa. Hreinlæti á heimilum er misjafnt. Þótt það sé yfirleitt í mjög góðu lagi þá verðum við að kyngja því að það er misjafnt. Og fólk getur gengið með ýmsa sýkla sem við vitum ekki um (og það ekki heldur). Við vitum að sýklar sem móðirin er með eru börnunum mun síður hættulegir því þau hafa jafnvel fengið mótefni fyrir þeim á meðgöngunni gegnum fylgjuna. En um sýkla frá öðru fólki gegnir allt öðru máli.

Nú, stundum eru notaðar pumpur orðnar gamlar eða farnar að gefa sig á einhvern hátt. Mér finnst í sjálfu sér ekkert athugavert við að systur skiptist á pumpum ef þær vilja. En almennt og yfirhöfuð ætti reglan að vera sú að hver kona keypti sér sína pumpu. Þær eru heldur ekkert svo dýrar.

Með bestu mjaltadælukveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. júlí 2006.