Spurt og svarað

30. júlí 2009

Hversu lengi að ná "rjóma"

Hver er svona yfirleitt tíminn sem barn er að ná góðu mjólkinni, "rjómanum"? Mitt barn er viku gamalt og hættir venjulega að drekka eftir 30-40 mín, stundum 20 mín. og það er engin leið að fá hana til að drekka meira. Yfirleitt sofnar hún í svona 3 klst. en stundum vaknar hún eftir 20 mín. og er alveg ómöguleg. Mér var ráðlagt að setja hana ekki aftur á brjóstið þar sem það getur aukið á loft/meltingarvandamálið sem hún er með heldur bíða fram að næstu gjöf. Ég velti því hins vegar stundum fyrir mér hvort hún hafi fengið nóg og hvernig ég geti vitað hvort hún hafi náð þessu rjómastigi.

 


Sæl og blessuð!

Það var gott að þú fórst að velta þessu fyrir þér. Það er nefnilega þannig að því styttra sem er á milli gjafanna þeim mun meiri eftirmjólk(rjóma) fær barnið. Fyrst í gjöf fær barnið formjólk sem er þunn og næringarlítil. Það getur tekið barnið frá 2 mínútum upp í 7-8 mínútur að drekka hana. Eftir það kemur næringarríkari eftirmjólk og fituhlutfallið eykst eftir því sem líður á gjöfina. Þannig er síðasta mjólkin sem barnið drekkur sú feitasta. Ef stutt líður að næstu gjöf t.d. 20 mínútur kemur formjólk í stuttan tíma en feita mjólkin kemur fljótt. Ef langt líður milli gjafa er tími formjólkurinnar lengri. Þannig að þú skalt endilega leggja barnið aftur á brjóst þegar það biður um það fljótt aftur. Þá ertu að gefa því meiri „rjóma“. Eftir því sem barnið eldist styttist gjafatíminn og þá aðlagast brjóstin því. Þá eru allir þessir tímar styttri og barnið getur fengið mjög ríkulega máltíð á 5-10 mínútum.

Vona að þetta hafi skýrt eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. júlí 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.