Hversu lengi er mjólk í brjóstum

11.02.2010

Sælar og takk fyrir góðan og upplýsandi vef!

 Ég hætti með son minn á brjósti í byrjun október 2009 og ég er ennþá með mjólk/vökva í brjóstunum. Þetta er nú ekki mikið en það þarf ekki mikinn þrýsting á brjóstin til að vökvi komi. Er þetta eðlilegt? Hversu lengi eru brjóstin að þurrkast upp? Mánuði áður en ég hætti brjóstagjöfinni þá voru gjafirnar komnar niður í eina-tvær gjafir á sólarhring þangað til að strákurinn hætti bara sjálfur. Ég er með legslímuflakk og á við ófrjósemi að stríða en ég var með vökva í brjóstunum áður en ég varð ólétt af stráknum. Samt sem áður voru allar hormónamælingar í lagi. Ég er aðallega að spá hvort að ástandið valdi enn frekari erfiðleikum með að verða ólétt í framtíðinni. Ég nota ekki neinar getnaðarvarnir sökum fyrri sögu en hef samt ekkert verið að reyna og er ekkert að stressa mig á því. En mig langaði samt að vita hvort þetta væri óeðlilegt eða hvort að ég ætti að fá ráðgjöf hjá lækni.

Kveðja. Loksins móðir.


 

Sæl og blessuð „Loksins móðir“!

Það þarf í sjálfu sér ekkert að vera óeðlilegt við þetta. Það er mikilvægt að þú sért ekki að kreista út mjólk því þannig geturðu viðhaldið örlítilli framleiðslu út í hið óendanlega. Þetta á ekki að trufla möguleika þína á að verða ófrísk aftur ef þú lætur þetta í friði svo fremi að önnur hormón séu í lagi.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. febrúar 2010.