Hversu mikilvæg er mjólkin fyrir börn eldri en 8 mánaða?

21.11.2006

Sælar og þakkir fyrir frábæran vef.

Hversu mikilvæg er mjólkin fyrir börn eldri en 8 mánaða? Ég er með eina 8 mánaða og langar að fara að minnka brjóstagjöfina. Hún drekkur u.þ.b. 6 sinnum á sólahring og borðar 4 máltíðir á dag. Hún drekkur mjög misjafnlega mikið, stundum bara nokkra sopa eftir máltíð. Ég er erlendis og hef enga stoðmjólk hér, og hef verið að prófa að gefa henni þurrmjólk í staðinn fyrir eina gjöf, en hún bara vill ekki sjá hana. Mín spurning er hvort það sé nóg fyrir mig að minnka brjóstagjöfina til að byrja með kannski niður í 3-4 og láta þann mjólkurskammt duga fyrir hana og svo fær hún bara vatn þess á milli eða þarf hún að drekka annarskonar mjólk í staðinn fyrir þær brjóstagjafir sem ég felli niður?

Kveðja, aprílkríli.


Sæl og blessuð!

Það er í lagi að minnka gjafirnar og gefa henni vatn með en úr því hún vill ekki þurrmjólk þá getur þú gefið henni járnbætta mjólk. Venjulega mjólk  eins og þessa bláu hérna heima ráðleggjum við ef börnin vilja ekki stoðmjólkina. Auðvitað er best að gefa þurrmjólk til eins árs vegna þess að hún er járnbætt - en þetta er erfitt ef börnin vilja ekki drekka hana. Hún þarf náttúrulega kalkið úr mjólkinni.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. nóvember 2006.